Mengunarvarnarbúnaður í bifreiðar ríkisins

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:05:22 (4581)

[15:05]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mun gera grein fyrir þáltill. sem er 326. mál 117. löggjafarþings á þskj. 517. Tillagan varðar eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnarbúnað í bifreiðar ríkisins og er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir að allar bifreiðar í eigu ríkisins verði búnar eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnarbúnaði, svokölluðum brennsluhvata.``
    Sá búnaður sem hér er rætt um er þekktur frá því í seinni heimsstyrjöld. Bretar notuðu þennan búnað í flugvélum sínum. Það er svo ekki fyrr en fyrir nokkrum árum síðan að búnaðurinn er endurhannaður til notkunar fyrir bifreiðar að hann fer að ryðja sér til rúms. Í nokkrum tilvikum, nánar tiltekið í Ástralíu, Bretlandi og Bandaríkjunum, hafa verið gerðar rannsóknir sem framsetning þessa máls byggist m.a. á. Enn fremur sú rannsókn sem framkvæmd var af tæknideild Fiskifélags Íslands ásamt Vélskóla Íslands sem hvetur beint til aðgerða. Íslenska rannsóknin var framkvæmd með styrk frá LÍÚ og umhvrn. og ég vil láta í ljós ánægju með fagleg vinnubrögð og framlag þessara aðila við vinnslu málsins.
    Með ítarlegum prófunum hefur verið sannað að sá búnaður, sem hér er lögð fram tillaga um að settur verði í ríkisbifreiðar, minnkar umtalsvert mengandi efni í útblæstri farartækja ásamt því að draga úr eldsneytisnotkun. Hér er um að ræða búnað framleiddan af þremur fyrirtækjum fyrir mismunandi vélarstærðir. Þessi búnaður er: Powerplus Cleanburn frá Powerplus International Corp. Ltd., Cleanburn frá Ross Marine Ltd. og CEP Cleanburn frá Filter Engineering Ltd.
    Það er engin þörf á að flytja mikla langloku með hátæknilegum skýringum um búnaðinn enda sá sem hér talar vart hæfur til þess þó að ég þekki af eigin reynslu góðan árangur af notkun þessa búnaðar. Skýrasta dæmi um aðgerðir stjórnvalda annarra landa er að þar sem mengun í stórborgum er mikil eru stjórnvöld farin að beita sér fyrir ísetningu svona búnaðar. Til að taka dæmi nefni ég Melbourne í Ástralíu og það má nefna Kaliforníufylki, þar var þetta tekið upp sem skylda, og Ankara í Tyrklandi.
    Fyrir þá aðila sem eiga eftir að fjalla um málið er rétt að nefna að það eru miklar upplýsingar sem liggja fyrir um árangur af notkun þessa búnaðar og í flestum tilvikum um meiri sparnað að ræða en íslenska rannsóknin segir til um. Og einnig umsagnir ýmissa notenda innlendra sem erlendra.
    Ég held að það sé óþarfi að fara nánar í málið í smáatriðum. En ég get ómögulega látið vera að nefna að mikil umræða var hér um að bifreiðar skyldu búnar hvarfakútum. Sá búnaður nýtist ekki fyrr en vélin hefur náð vinnsluhita sem þýðir að bifreið sem gangsett er t.d. í miðborg Reykjavíkur hefur ekki náð vinnsluhita fyrr en í Ártúnsbrekku. Á meðan eyðir vélin meira eldsneyti og mengar umhverfi meira en ella. Ef hvarfakútar eru í bifreiðum breytir það engu um hæfni þess búnaðar sem þessi þáltill. fjallar um. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein Örnólfs Thorlaciusar í Ökuþór, málgagni Félags ísl. bifreiðaeigenda, um blýlaust bensín, sem hljóðar svo:
    ,,Á bensínstöðvum hér á landi er selt blýlaust bensín með oktantölu 92, 95 og 98 oktana bensín. Það er blandað blýsamböndum. Oktantala bensíns er mælikvarði á hversu mikla þjöppun blanda bensíns og lofts þolir í strokkum sprengihreyfils án þess að til gangtruflana komi.
    Nú mætti ætla að allir umhverfishollir bílstjórar ættu að knýja bíla sína blýlausu bensíni ef vélarnar þola það. En Roger Perry, prófessor í umhverfisfræðum við Imperial College í Lundúnum, hefur komist að því að blýbensínið er hollara umhverfinu en það blýlausa ef því er brennt í bifreiðum án hvarfakúta. Í stað blýsambanda er bætt í blýlausa bensínið arómatískum ómettuðum vetniskolum sem brenna ekki fyllilega í bifreiðum án hvarfakúta. Í útblæstrinum verða þá arómatísk efni m.a. bensen sem talið er að valdið geti hvítblæði.``
    Eldsneytissparnaður reynist mismunandi eftir vélartegundum en liggur á bilinu 4--10% sem leitt getur til sparnaðar sem nemur tugum milljarða kr. hjá ríkinu. Minnkun skaðlegra efna og lofttegunda í útblæstri vegna betri brennslu og þar með lægri útblásturshita liggur á bilinu 15--60% eftir gastegundum. T.d. er minnkun að meðaltali sem hér segir:
    HC eða kolvetni um 40%, köfnunarefnisoxíð um 18%, kolmónoxíð um 60% og í kolvetniskeðjum 50%.
    CO 2 -mælingar sýna að hlutfallið í útblæstri eykst lítillega en gengur til baka vegna þess að brennt er minna magni af olíu eða bensíni til þess að fá sömu orku út úr vélinni. Án þess að framkvæma kostnaðarsamar breytingar geta flestir bílar með notkun Powerplus brennt blýlausu (blýminna) bensíni og þar af leiðandi minnkar blýmengun af völdum fólksbíla um u.þ.b. 20 tonn á ári.
    Tæknideild Fiskifélags Íslands, eins og áður gat um, hefur ásamt Vélskóla Íslands gert mjög nákvæma rannsókn á vél togarans Snorra Sturlusonar þar sem niðurstöður sýna fram á að ef íslenski togara- og fiskiskipaflotinn notaði Cleanburn eða CEP Cleanburn brennsluhvatann gæti verið um að ræða 200--300 millj. kr. sparnað á ári. Niðurstöður tæknideildar Fiskifélags Íslands og Vélskóla Íslands staðfesta niðurstöður tæknideildar British Rail sem gert hefur ítarlega prófun á a.m.k. átta hraðlestum síðustu 18 mánuði.
    Herra forseti. Ég vil taka hér dæmi um sparnað: Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er nálægt 4 milljörðum kr. á ári. Ef 4--5% sparnaður næst mun hann nema um 200 millj. kr. sem svarar til 650--1.120 þús. kr. á togara eftir olíutegundum.
    Mér er kunnugt um það að útvegsmenn hafa vaxandi áhuga á Cleanburn og margir þeirra hafa sett þennan búnað í skip sín á grundvelli staðreynda frá þeim sem hafa notað og gert úttekt á búnaðinum undanfarin fjögur ár. Ég tel að það væri eðlilegt að veita úr Fiskveiðasjóði sérstaka fyrirgreiðslu til að flýta fyrir uppsetningu þessa búnaðar í flotann með tilliti til sparnaðar og minni mengunar.
    Hæstv. umhvrh. hefur sagt að undir vissum kringumstæðum sé mengun frá útblæstri bifreiða á vissum stöðum í Reykjavík mjög mikil. Sú staðreynd að unnt er að draga svo um munar úr þeirri útblástursmengun er alveg óyggjandi og er hún ein helsta ástæðan fyrir flutningi þessarar þáltill. svo og sparnaður sem kemur ríkissjóði til góða. Það er von flutningsmanna að þessi ályktun hljóti skjóta og góða afgreiðslu í þinginu.
    Ég vil síðan, herra forseti, leggja til að eftir umfjöllun fari þáltill. til virðulegrar umhvn. Um leið og ég segi þetta þakka ég meðflutningsmanni mínum, hv. þm. Petrínu Baldursdóttur, fyrir að leggja málinu lið.