Mengunarvarnarbúnaður í bifreiðar ríkisins

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 15:15:37 (4582)

[15:15]
     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er lagt fram til umræðu mál er snertir eldsneytissparnað og mengunarvarnarbúnað í bifreiðum ríkisins. Ég þakka hv. þm. Gísla S. Einarssyni og Petrínu Baldursdóttur fyrir að telja þetta mál þess virði að veita því athygli því mér er fullkunnugt um að fyrrv. umhvrh., Eiður Guðnason, sýndi þessu hvorki áhuga og þaðan af síður skilning og vakti það reyndar furðu margra er eitthvað þekkja til þessara mála. En það er nú einu sinni þannig með umhverfismálin að þau snerta allt okkar daglega líf og maðurinn sjálfur hefur það í hendi sér hvernig til tekst með umgengnina við náttúruna.
    Á seinni árum hefur orðið til umfangsmikil þekking og reynsla víðs vegar um heim á þeirri tækni sem hægt er að beita til að draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá hinu svokallaða velferðarþjóðfélagi. Þessa tækni þarf að sjálfsögðu að nýta til hins ýtrasta því leita þarf allra ráða til að draga úr mengun. Þess vegna er aldrei rétt að hafna nýjungum meira og minna án raka, eins og mér virtist fyrrv. umhvrh. hafa gert á sínum tíma. Oft verður jafnvel að taka áhættu eða láta reyna á það sem sannara reynist.
    Eins og kom fram í ræðu 1. flm. tillögunnar þá virðast öll rök hníga að því að hægt sé að hvetja til notkunar á þessum tækjum. Þau munu geta sparað eldsneyti og þar af leiðandi dregið úr mengun. Það er talað um að þau borgi sig upp á skömmum tíma og það er eitt af því sem er kærkomið á þessum tímum. Eins og fram kom verður þessi eldsneytissparnaður m.a. til vegna þess að í þessum tækjum fer bruni fram við lægra hitastig og orkutap verður þar af leiðandi minna. Eftir því sem mér hefur verið tjáð er því hins vegar öfugt farið með hina umdeildu hvarfakúta sem bæði valda meiri kostnaði í innkaupum á nýjum bílum og jafnframt aukinni eldsneytisnotkun og er því vafasamur hagnaður á sviði mengunar.
    Ég vil endurtaka þakkir mínar til flutningsmanna tillögunnar, sérstaklega í ljósi þess, eins og áður segir, hve þessu hefur verið sýndur lítill áhugi áður fyrr og vænti jafnframt að núv. hæstv. umhvrh. sýni þessu máli verðskuldaðan áhuga ekki síst vegna góðrar þekkingar sinnar á mikilvægi náttúru- og umhverfisverndar. Jafnframt vil ég taka undir orð hv. þm. Gísla S. Einarssonar að hvetja til þess að það komi sem fyrst sérstök fyrirgreiðsla úr Fiskveiðasjóði til þess að það verði hægt að flýta fyrir uppsetningu þessa búnaðar í flotanum.
    Virðulegur forseti. Ég hvet til þess að þetta mál fái skjóta og málefnalega afgreiðslu í þinginu.