Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 20:56:42 (4638)


[20:56]

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Fyrst um deiluna sem bráðabirgðalögin voru sett til að leysa. Sú deila lýsir vanhæfni ríkisstjórnarinnar til að fara með þessi mál og það ber ekki stjórnarhæfileikum hæstv. sjútvrh. fagurt vitni að deilan skuli hafa þróast með þeim hætti sem hún gerði. Það var augljóst að það stefndi í deilu þegar í sumar. En forustuna vantaði að reyna að leysa deiluna, reyna að koma í veg fyrir það að deilan yrði alvarleg. Það var ekkert rætt við hagsmunaaðila, a.m.k. svo að dygði, og deilan fékk að þrútna afskiptalaust af ríkisstjórnarinnar hálfu. Menn byrjuðu á því að tala um kvótabrask og það var sannarlega ástæða til því einhver dæmi munu vera til þess að útvegsmenn hafi knúið sjómenn til þess að taka þátt í kvótakaupum. Því athæfi er ekki mælandi bót. Það var afskaplega einföld lausn, eins og hv. síðasti ræðumaður var að benda á í skýrri og glöggri ræðu, að koma í veg fyrir það með lagasetningu. Það var réttmæt krafa sjómanna að þeir yrðu fríaðir frá því að standa fyrir kvótakaupum handa útgerðinni og eðlilegt að þeir væru ekkert ánægðir með það.
    En af því að málið fékk að vera í friði og ágreiningsmálin hrönnuðust upp þá fór í verkfall. Þá tekur til sinna ráða einn af varaþingmönnum Sjálfstfl., formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og hann verður mikill fyrirsvarsmaður annars deiluaðilans. Ég held að það sem fyrir formanni Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafi vakað hafi ekki verið fyrst og fremst að koma í veg fyrir kvótabrask. Hann var að reyna að nota þessa deilu og hann sneri þessari deilu upp í það að berjast við kvótakerfið. Hann vildi eyðileggja það fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er við lýði. Þróun deilunnar er að töluverðu leyti á ábyrgð Guðjóns A. Kristjánssonar. Ef ríkisstjórnin hefði stoppað þennan varaþingmann Sjálfstfl. þá hefði ekki komið til þess að deilan yrði með þeim hætti sem hún varð. Kvótakerfið er nefnilega komið til að vera og það erum við hæstv. sjútvrh. sammála um. Auðvitað þarf að sníða af því galla. Það eru á því gallar og hafa allan tímann verið. Það voru gerð mistök strax í upphafi þegar kvótakerfið var sett á, þ.e. að láta smábátana vera frjálsa. Það hefur hefnt sín heldur betur síðan og fyrir bragðið var farið út í stórkostlega offjárfestingu í smábátum og menn náttúrlega reyndu að bjarga sér af því að þarna var smuga. Kvótakerfið var upphaflega sett vegna þess að það var það kerfi sem víðtækust samstaða náðist um í þjóðfélaginu meðal hagsmunaaðila. Ég hef þá trú að það sé ekki víðtækari samstaða um aðra lausn þó flestir eða allir geti hugsað sér að breyta einhverju í kvótakerfinu.
    Vestfirðingar tóku kvótakerfinu sérstaklega illa og verr en menn í öðrum landshlutum og vissulega hefur þetta kvótakerfi komið illa við Vestfirðinga og það er sorglegt. Að sumu leyti var það ósanngjarnt t.d. hvað varðaði grálúðuna þegar hún var kvótasett o.s.frv. en meginatriðið í þessu er samt það að Vestfirðingar kærðu sig ekkert um að laga sig að kvótakerfinu. Þeir trúðu sínum þingmönnum sem komu með stóryrtar yfirlýsingar og bannfærðu kvótakerfið og létu ekkert tækifæri ónotað til þess að flytja hrókaræður um það þegar þeir komu heim í kjördæmið sitt hvað þetta væri ómögulegt kerfi. Þeir trúðu því ekki að þetta kerfi væri komið til að vera. Þeir hafa reiknað með því sennilega allan tímann að þetta væri bara stundarfyrirbæri og það þýddi ekkert að vera að búa sig undir það að búa við það.
    Það hefur ekki verið sama þróun í öðrum landshlutum og aðrir hafa lært að lifa með kvótakerfinu. Meðan Vestfirðingar hafa misst frá sér kvótann vegna þess að þeir voru í endalausri baráttu gegn kvótakerfi þá hafa aðrir komist upp á lag með að búa við það og vegnar tiltölulega vel. Ég tel að ábyrgð þingmanna Vestfjarða sé verulega mikil vegna þess hvernig komið er á Vestfjörðum núna.
    Þessi deila stofnaðist á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hún var orðin illleysanleg eins og hún hafði þróast. Auðvitað kom til álita að setja lög um þessa deilu, fresta henni og reyna að vinna sér einhvern tíma. Það var ekkert hægt að hafa flotann í landi. En að sjálfsögðu var eðlilegt að kalla þing saman og aðferðin við að koma þessari lagasetningu á var kolröng. Það lá fyrir að stjórnarandstaðan mundi ekki fara að standa í miklum málalengingum út af lagasetningu um frestun. Það var stjórnarherrunum fullkunnugt um. Þessi bráðabirgðalög eru um frestun á verkfallinu. Við skulum sjá hvernig þessi frestur hefur verið notaður. Það var sett upp þríhöfða nefnd. Það segir í máltækinu: Því verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Við höfum búið við tvíhöfða nefnd, að vísu tveir bráðvitrir hausar en þegar þeirra ráð komu saman þá lánuðust þau ekki neitt sérstaklega vel. Margt er gott í hugmyndum þeirra en ekki hafa þær orðið að veruleika enn þá. Það var sett upp þríhöfða nefnd með a.m.k. jafngóðum hausum eða jafnvel betri. En ekki tókst þeim að höggva á hnútinn. Málið virðist ekki vera að leysast fyrir þeirra tilverknað. Það sorglega við þetta er að málið er allt í klessu enn þá. Og það sér ekkert fyrir endann á þessu máli. Nú er liðinn 1. febr. sem þeir áttu að vera komnir með lausnarorðið.
    Síðan segir í 2. gr.: ,,Allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til skulu gilda frá gildistöku laga þessara til 15. júní 1994 nema aðilar semji um annað.``
    Reiknið þið með hv. þm. að aðilar semji um annað? Ég reikna ekki með því. Hvað skeður 15. júní? Menn eru nákvæmlega í sama farinu og þeir voru þegar lögin voru sett. Það var fáránlegt að setja bráðabirgðalög og eiginlega sorglegt að hlusta á hæstv. forsrh. með orðbragð eins og hann var með áðan og þann galsa sem var í honum að ræða málin í ræðustól á Alþingi með þessum hætti eins og hann kom fram.
    Með því að setja bráðabirgðalög með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerði þá var farið illa með bráðabirgðalagavaldið. Það er ekki um það deilt að skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar er heimilt að setja bráðabirgðalög. Við höfum upplifað það eins og reyndar kom fram í langri romsu hæstv. forsrh. að ríkisstjórnir hafa freistast til að setja bráðabirgðalög. --- Og nú langar mig, frú forseti, til að óska eftir nærveru hæstv. forsrh. í salnum áður en ég held áfram að tala um bráðabirgðalög því að ég á við hann lítið erindi.
    Ég tel að forsrh. ætti að gefa taflið og koma hér í salinn.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. forsrh. er á skyndifundi í hliðarherbergi en hann kemur innan tíðar.)
    Mér þykir það nokkuð alvarlegt ef hæstv. forsrh. má ekki vera að því að vera í þingsalnum vegna skyndifunda.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. forsrh. er kominn.)
    Þakka ég fyrir það. Ég var, hæstv. forsrh., að tala um setningu bráðabirgðalaga. Ég tel að það hafi verið óskynsamlegt að setja lög með þeim hætti sem gert var. Það getur vel verið að það hafi verið ómögulegt fyrir ríkisstjórnina að höggva á deiluna með öðru móti en með lagasetningu, þ.e. að fresta deilunni, en ég held að það hafi verið rangt að kalla ekki Alþingi saman. Það lá fyrir að stjórnarandstaðan vildi fá þingið saman og var tilbúin að greiða fyrir því að lagafrumvarp frestunar efnis hlyti afgreiðslu með skjótum hætti. Með þessu er farið illa með bráðabirgðalagavaldið.
    Það er ekki um það að deila að skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar hefur ríkisstjórnin vald til að setja bráðabirgðalög þegar brýna nauðsyn krefur. Ég get viðurkennt að það hefur verið farið afar frjálslega og óþarflega frjálslega með þetta vald í undanförnum nokkrum ríkisstjórnum sem ég hef þekkt. Og vegna þess að mönnum þótti of glannalega farið með bráðabirgðalagavaldið, bráðabirgðalögum var beitt óþarflega oft, þá kom það til tals að afnema bráðabirgðalagavaldið. Sá sem gekk harðast fram í því við síðustu stjórnarskrárbreytingu var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Ólafur G. Einarsson. Við framsóknarmenn féllumst ekki á það að afnema bráðabirgðalagavaldið þá. Við vitnuðum til þess að það gætu komið upp þau tilvik í náttúruhamförum t.d. eða styrjaldarástandi að nauðsynlegt væri fyrir ríkisstjórn að hafa þetta vald ef ómögulegt væri að kveðja Alþingi saman. En við breyttum hins vegar þingsköpunum þannig að það yrði óþarfi að beita bráðabirgðalagavaldi. Við vonuðum að það héldi þannig að menn hættu þessum ósið og kölluðu Alþingi saman og settu lög með eðlilegum hætti.
    Því miður hefur sú von okkar brugðist. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur að vísu ekki nema tvisvar sinnum, svo ég muni eftir, sett bráðabirgðalög. En í bæði skiptin með mjög umdeilanlegum hætti og í bæði skiptin hefði verið eðlilegt að kalla Alþingi saman. Ég ætla að vona að það eigi ekki fyrir henni að liggja að grípa til þessara óyndisúrræða

oftar. Það er hægt að kveðja Alþingi saman með örstuttum fyrirvara.
    Þá velti ég því fyrir mér hvers vegna hæstv. ríkisstjórn kallaði ekki þingið saman. Og mér finnst það vera alveg morgunljóst. Það var vegna þess að þeir treystu ekki sínu eigin liði. Þeirra lið var ekki í stakk búið til að taka málið og draga það í gegnum þingið. Það getur ekkert annað verið sem hindraði þá í jafnsjálfsögðum hlut og að kalla þingið saman. Þess vegna er gripið til þessa óyndisúrræðis að setja bráðabirgðalög og láta meiri hlutann, þ.e. þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl., standa frammi fyrir gerðum hlut og segja síðan við þá: Ætlið þið að fella ríkisstjórnina með því að fella bráðabirgðalögin? Þannig er farið með vesalings hv. þm. Sjálfstfl.
    Ég hygg að ég hafi heyrt það rétt að haft hafi verið samband við þingmenn Alþfl. áður en þessi bráðabirgðalög voru sett. Þingmönnum Sjálfstfl. var hins vegar öðrum en tveimur stillt upp við vegg og þeir látnir standa frammi fyrir gerðum hlut. Í mínum huga er það löglegt og ekkert sem bannar það í stjórnarskrá eða hindrar að forsrh. eða viðkomandi fagráðherra sem fyrir bráðabirgðalögunum stendur fullvissi forseta um það að meiri hluti sé fyrir þeim á þinginu. Þau eru sett á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar og þess ráðherra sem undirskrifar lögin. Þess vegna er ég ekki sammála þeim ádeilum sem á ríkisstjórninni hafa dunið um það atriði. En það breytir hins vegar ekki því að það er náttúrlega engin framkoma við þingmenn Sjálfstfl. að hafa ekki samband við þá og sýna þeim ekki þá virðingu að spyrja þá eða yrða á þá og láta þá bara frétta það í útvarpinu eða lesa það í blöðunum að það væri búið að setja bráðabirgðalög. Það lýsir alveg dæmalausri fyrirlitningu foringja Sjálfstfl. bæði núv. formanns og fyrrv. formanns á þingmönnum Sjálfstfl.
    Mér er sérstök ánægja að upplýsa það, því ég efast um að það viti neinn betur en ég, að alltaf í öll þau mörgu skipti sem bráðabirgðalög hafa verði sett síðan ég varð þingflokksformaður 1980, ég hef verið óslitið þingflokksformaður og flokkur minn átt aðild að ríkisstjórn 1980--1991, stóð ég í þeim hringingum að meira eða minna leyti að hafa samband við þingmenn flokksins ellegar þá starfsmaður þingflokksins, Kristján Benediktsson, sem iðulega tók af mér ómakið. Og það er alveg fjarstæða orðbragðið sem hæstv. forsrh. notaði áðan og ótrúlegar getsakir og ósannindi sem hann fór með í ræðustólnum og sorglegt var að heyra hann fullyrða um mál sem hann hefur enga aðstöðu til að vita um. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram bæði hjá hv. 7. þm. Reykn., Steingrími Hermannssyni og hv. 4. þm. Norðurl. v. að þessi regla var sjálfsögð á meðan Framsfl. var í ríkisstjórn. Einstöku sinnum kom það fyrir að við náðum ekki í alla. En við hættum aldrei fyrr en það var orðinn tryggur meiri hluti í stjórnarliði.
    Mér fannst nú aumleg vörn hjá hæstv. forsrh. fyrr í dag þegar hann dró hæstv. fyrrv. forsrh., Gunnar heitinn Thoroddsen, inn í þessa umræðu. Nú vill svo til að ég var þingflokksformaður Framsfl. meðan ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sat að völdum. Það var veik ríkisstjórn, hún hafði ekki mikinn þingstyrk en hún var studd heils hugar af þingflokki framsóknarmanna og Alþb. og nokkrum sjálfstæðismönnum, ráðherrunum þremur Gunnari Thoroddsen, Friðjóni Þórðarsyni og Pálma Jónssyni og svona oftast nær af hv. þm. Eggert Haukdal og Albert Guðmundssyni. Mig minnir að þegar ríkisstjórnin var mynduð þá hafi hv. þm. Albert Guðmundsson heitið því að verja hana vantrausti. Hann stóð að sjálfsögðu með þessari ríkisstjórn í fjöldamörgum málum en ekki öllum. En hæstv. fyrrv. forsrh. og þáv. varaformaður Sjálfstfl., ef ég man rétt, átti fleiri vini í þingflokki Sjálfstfl. heldur en gengu opinberlega til liðs við ríkisstjórnina og mér var kunnugt um það að honum var hlýrra til sumra þingmanna Sjálfstfl. en annarra og sumir voru bókstaflega stikkfrí. Það var tekið óstinnt upp að anka í þá. Mér er í minni fundur sem ég átti í forsrn. haustið 1980 með hæstv. þáv. forsrh., Gunnari Thoroddsen. Á þeim fundi var einnig hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þar sem við vorum að undirbúa kosningar í þinginu. Að kröfu hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens þá var hv. þm. Sverrir Hermannsson valinn forseti neðri deildar. Nú var ég mikill vinur hv. þm. Sverris Hermannssonar og hafði á honum hið besta traust en mér fannst þetta nokkuð glannalegt hjá hæstv. forsrh. að krefjast þess að honum yrði falinn forsetastóllinn í neðri deild. Það kom á daginn að þetta var ekkert glapræði hjá hæstv. forsrh. Sverrir Hermannsson gegndi sínu starfi af mikilli prýði sem forseti. Og ég þakkaði honum fyrir stjórn þingsins á hverju vori af mikilli innlifun og með góðri samvisku. Iðulega var hann ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens betri en enginn.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið meira. Ég hef áhyggjur af því hvar við stöndum 15. júní þegar bráðabirgðalögin falla úr gildi. Það var vafalaust að mati ríkisstjórnarinnar nauðsyn að höggva á hnútinn með lagasetningu. Ég held að það hafi ekki verið ólöglega að því staðið. Ég held að ríkisstjórnin hafi haft rétt til að setja þessi bráðabirgðalög en það var ákaflega óskynsamlegt að gera það í þessu formi, þ.e. að fara bráðabirgðalagaleiðina vegna þess að hún var óþörf. En skýringin er sem sagt sú að það þurfti að kúga þingmenn Sjálfstfl. til að styðja þessa aðgerð.