Ræktun íslenska fjárhundsins

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:20:34 (4808)


[18:20]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Í gegnum aldirnar hefur það jafnan verið hlutverk íslenskra bænda að viðhalda menningararfleifðinni og þegar á hefur bjátað í sögu þjóðarinnar hafa það verið íslenskir bændasynir sem hafa varðveitt logann og stundum líka orðið til þess að fara utan og sækja sér nýja strauma sem þeir hafa fært inn í íslenskt þjóðlíf. Enn í dag er engin stétt íslenskra manna sér jafn vel meðvituð um söguna og nauðsyn þess að hlúa að henni og hlúa að tengslunum við fortíð okkar en einmitt íslenskir bændur.
    Nú hefur einn af foringjum íslenskra bænda, hv. þm. Guðni Ágústsson, flutt tillögu um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins. Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé mjög góð tillaga og lýsi við hana fullum stuðningi. Ég held að þetta mál sé mjög þarft og mér liggur við að segja afar brýnt. Við vitum öll að í vaxandi mæli hafa menn, vegna þess að áhugi hefur aukist, ekki síst meðal borgarbúa, á að hafa hunda, þá hefur áhugi aukist á því að flytja inn hunda frá útlöndum. Ég hygg að óhætt sé að halda því fram að þessi innflutningur nýrra eða sjaldgæfari tegunda hafi stóraukist á síðustu árum. Um leið er það svo að blöndun við það hundakyn sem er í landinu hefur líka aukist. Þó e.t.v. sé ofmælt að halda því fram að það stappi nærri því að íslenski fjárhundurinn sé í útrýmingarhættu, þá er það nú svo að áður en bráður háski vofir yfir þá eiga menn að taka í taumana. Eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gat um áðan, þá búa menn nú yfir þaulreyndri tækni til þess einmitt að fara í svona verk. Ég hygg, þó að ég sé e.t.v. ekki mjög fróður t.d. um íslenska hestinn, að innan Búnaðarfélagsins eða í tengslum við það sé tölvubúnaður sem hafi

reynst afskaplega vel, auk þess sem íslenskir bændur hafa í gegnum aldir og a.m.k. skipulega sums staðar síðustu áratugina ræktað íslensku sauðkindina og á seinni árum tekið það líka yfir á tölvuvætt form. Þannig að ég hygg að þetta sé afskaplega auðvelt mál. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. flytur þessa tillögu og mun styðja hana ef hún kemur hér eftir umfjöllun landbn. til í afgreiðslu í þinginu.
    Það er nefnilega svo að Ísland á margar auðlindir. Það eru ekki bara þær sem synda í hafinu, það er ekki bara hin ósnortna náttúra landsins, sem í vaxandi mæli hefur reynst okkur tekjulind og þar með auðlind, heldur eru það ýmiss konar önnur atriði sem er líka hægt að kalla auðlind þó ekki beinlínis gefi þær af sér hreinar tekjur, enda á ekki að leggja þann mælikvarða á þann auð sem Ísland á. Það er t.d. svo að arfberarnir, þessi örsmáu flóknu völundarhús, sem bera milli kynslóða forskriftina að nýjum einstaklingum, eru líka auðlind. Erfðir eru auðlind. Það má nefna íslenska hundinn, það má nefna íslenska hestinn. Þetta eru auðlindir sem aðrar þjóðir búa ekki yfir í jafnríkum mæli og við, þó að það sé að vísu svo að áhugi erlendra þjóða á þessum tveimur tegundum hafi valdið því að þær séu í vaxandi mæli fluttar til útlanda. Í samskiptum þjóða, ekki síst samskiptum þjóða norðursins og hins fátækara suðurs, hefur það í vaxandi mæli orðið áberandi í umræðunni að hinar fátækari þjóðir, sem svo vill til að búa margar yfir mestum líffræðilegum fjölbreytileika, hafa á hinum alþjóðlega vettvangi sett fram kröfu um það að þær erfðir sem þær leggja inn í arfberasjóð veraldarinnar séu þeim metnar til tekna og upprunaréttur þeirra sé varðveittur og metinn.
    Í alþjóðlegum samningi um vernd lífræðilegrar fjölbreytni, sem Ísland hefur undirritað, eru þannig ákvæði um rétt þjóða á sínum erfðaauðlindum og m.a. líka hvernig skuli fara með hagnað af þeim þó að þessar erfðir séu nýttar í öðrum löndum. Og þar er einmitt fjallað sérstaklega um rétt upprunaþjóða. Nú er það svo að undir þetta fellur einmitt íslenski fjárhundurinn, sem er einstæð tegund sem hefur verið hér frá því land byggðist, íslenski hesturinn og útflutningur á sæði úr íslenskum hrossum fellur líka undir þetta, sem og annað íslenskt erfðaefni sem kann að verða flutt út.
    Þetta vil ég nefna hér vegna þess að það tengist þessu efni og þessi samningur um vernd líffræðilegrar fjölbreytni verður senn lagður fyrir þingið, á næstu vikum, og verður auðvitað okkar hagur að fullgilda hann. Og ég tel að þessi tillaga um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins falli einmitt inn í þá skyldu sem við öxlum með því að gerast aðilar að þessum samningi um líffræðilega fjölbreytni. Því segi ég það í rökréttu framhaldi af því að við gerumst aðilar með undirskrift okkar að þessum samningi að þá sé eðlilegt að við förum í það verk sem hér er lagt til. Ég lýsi fullum stuðningi við þessa ágætu tillögu.