Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:15:56 (4825)


[14:15]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég hélt að það væri ekki venjan að meina mönnum að koma sínum athugasemdum á framfæri um fundarstjórn í umræðu sem þegar er hafin um það áður en henni væri þá frestað. Ég vil taka það skýrt fram að ég var ekki að áfellast forseta fyrir að hafa misskilið það þegar við báðum um orðið og slíkt getur að sjálfsögðu alltaf gerst. Ég hefði haldið að miðað við andrúmsloftið sem var undir ræðu hæstv. samgrh. þá hefði forseti mátt láta detta sér það í hug að menn óskuðu eftir því að fá að gera athugasemdir við fundarstjórn en væru ekki að koma á mælendaskrá.
    Hins vegar heyrði ég engan úrskurð í framhaldi af beiðni 3. þm. Vesturl. um það að umræðunni yrði frestað og það var það sem ég átti við og það sem ég fór fram á að forseti gerði, að fella úrskurð, svara beiðninni um að umræðunni yrði frestað þannig að tími gæfist til að koma henni til nefndar. Svo gerðust að vísu þau fáheyrðu tíðindi að hv. formaður samgn. kvaðst neita því að kalla nefndina saman, þá vil ég benda hv. formanni samgn. að lesa 15. gr. þingskapa og hugleiða hvort það er mjög skynsamleg afstaða af nefndarformanni að vera með yfirlýsingar af þessu tagi. Í 15. gr. þingskapa stendur að þriðjungur nefndarmanna getur krafist þess að þingnefnd komi saman til fundar. Vill hv. formaður samgn. fá þannig kröfu í hausinn? Finnst honum skemmtilegra að neyðast til að halda fundi í samgn. um málið heldur en að gera það sjálfviljugur? Ég verð nú að segja alveg eins og er að svona stirðbusahátt skil ég ekki. Hvaða tilgangi þjónar það fyrir stjórnarliðið, hæstv. ráðherra, hv. formann samgn. og hæstv. forseta að koma fram með þessum hætti? Stirðbusaháttur af þessu tagi auðveldar mönnum ekki samstarfið í þinginu. Ég hef engin rök heyrt fyrir því að þetta mál bíði sér einn sólarhring til óbóta, bara engin rök og það megi ekki halda eins og einn stuttan fund í samgn. og fá um það upplýsingar hvers vegna þessi tillaga er flutt og það svona seint og hvað á bak við hana stendur. Ég sé ekki að það geti gert mikið tjón að þetta yrði frekar tekið á dagskrá á morgun að loknum slíkum fundi. (Forseti hringir.) En auðvitað verða þeir sem valdið hafa að ráða því hvernig þeir beita því hér.