Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:19:43 (4861)


[18:19]
     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég er meðflm. á þessari tillögu og eindreginn stuðningsmaður hennar. Oft hafa verið lagðar fram tillögur á hinu háa Alþingi sama efnis, m.a. að frumkvæði sjálfstæðismanna og ekki síst að þeirra frumkvæði, en ekkert hefur breyst í þessum málum. Þessi tillaga fer núna til hv. efh.- og viðskn. en þar á ég sæti. Sú nefnd hefur verið að kynna sér lífeyrissjóðsmálin og m.a. fundað með fulltrúum fjmrn. en þar eru menn að skoða þessi mál í heild sinni.
    Varðandi þetta atriði um tvísköttun þessara greiðslna er það álit þeirra í fjmrn. að það feli ekki í sér sérstaklega háar fjárhæðir en til þess hins vegar að ráða bót á tvísköttun iðgjalda og lífeyris hefur verið bent á að gera þurfi framlög í lífeyrissjóði frádráttarbær. Það sé hins vegar miklu stærra mál fjárhagslega séð og erfiðara í framkvæmd. Við þessu er það að segja að viljinn þarf að vera fyrir hendi til að breyta þessu og fyrir því vil ég beita mér.
    Ég tel fulla ástæðu til að löggjafarvaldið hugi sérstaklega að málefnum aldraðra og stöðu þeirra varðandi lífeyrisgreiðslur, bæði úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun ríkisins, og því misrétti sem þar viðgengst.
    Ég hef hér undir höndum verklagsreglur frá Tryggingastofnun um tekjutryggingu frá því um haustið 1993 þar sem m.a. kemur fram varðandi einstaklinga að ef aðrar tekjur elli- eða sjómannalífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga, vextir, verðbætur eða gengishagnaður, sem frádráttarbær eru frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns og arður af hlutabréfum, fari ekki fram úr 217.390 kr. á ári, þ.e. 18.110 kr. á mánuði, skal greiða óskerta tekjutryggingu að upphæð 22.684 kr. í september. Hafi bótaþeginn hins vegar tekjur umfram 217.390 kr. skal skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru. En tekjutryggingin fellur alveg niður við 822.227 kr. tekjur á ári.
    Sá sem fær greiðslur úr lífeyrissjóði má nú hafa 315.695 kr. á ári án þess að tekjutrygging skerðist, þ.e. 26.308 kr. á mánuði. Þetta eru því ekki háar fjárhæðir.
    Það mætti halda áfram, virðulegur forseti, að rekja fleiri dæmi. Það hefur líka verið bent á þá ósanngirni sem gildir varðandi hjón þar sem tekjur þeirra skerðast hlutfallslega meira en einstaklingar og finnst mörgum það vera mjög óréttlátt.
    Ég vil bara að lokum fagna því að þessi tillaga hefur komið fram og vona svo sannarlega að þetta mál fái framgang á hinu háa Alþingi.