Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:58:30 (4962)


[13:58]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Þetta er að verða alveg einstakt hér í þinginu. Ég hef bæði átt aðild að ríkisstjórn á þeim 6--7 árum sem ég hef verið hér og verið í stjórnarandstöðu. Venjan var sú að forsetar sem sátu í því virðulega sæti sem hæstv. forseti situr nú í urðu við slíkum tilmælum. Hér er skýrt kallað á þá beiðni að hæstv. landbrh. verði við þessa umræðu frá upphafi til enda og hef ég aldrei heyrt að hæstv. forseti neiti slíkri beiðni. Hér er heit umræða sem er búin að standa vikum saman og við hljótum að gera skýlausa kröfu til þess að hæstv. landbrh. hlusti á nýjasta boðskap hv. þm. Egils á Seljavöllum því hann hefur nú verið breytilegur síðustu vikurnar. ( Gripið fram í: Nýársboðskap.) Og ég geri kröfu um það, hæstv. forseti, að við beiðni stjórnarandstöðunnar í þessum efnum verði orðið.