Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:31:34 (4973)


[14:31]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta ákvæði er nú reiknisregla að því er varðar GATT. En það sem ég átti einfaldlega við í þessum efnum er það að ef menn vega saman tolla og verðjöfnunargjöld eins og skýrt er áréttað í nefndaráliti því sem ég hef nú mælt hér fyrir, þá þarf ekki að breyta krók eða staf í búvörulögunum til þess að ná því markmiði að verðjafna á grundvelli tollígilda eins og GATT-reglur segja fyrir um. Frv. og lögin eins og þau kunna að verða halda þar af leiðandi fullu gildi sínu verði horfið að því ráði eins og lagt er til í nefndarálitinu að vinna samtímis með hvort tveggja, verðjöfnunargjöld og tolla.