Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 16:18:11 (4981)


[16:18]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nefndarálit 1. minni hluta landbn. lýsir út í hörgul hvaða samkomulag var gert um landbúnaðarmálin milli stjórnarflokkanna og lá til grundvallar lagasetningunni í desembermánuði. Þær skýringar, sem eru á brtt. sem fjórir þingmenn leggja fram og hefur verið hér til umræðu, eru samdar af þeim lögfræðingum sem sömdu lagagreinarnar og hlýtur því nefndarálit 1. minni hluta að liggja til grundvallar við skilning á brtt.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. vegna ummæla hans hér áðan þegar hann taldi að hans eigin brtt. brytu í bága við GATT-samninga og stæðust varla stjórnarskrá, þá hvarflaði að mér hvort ég ætti að spyrja hann að því hvort hann mundi greiða atkvæði með breytingartillögunum.