Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 16:25:40 (4989)


[16:25]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Út af fyrir sig þyrfti ekki að hafa lengri umræðu um það mál sem liggur fyrir. Við höfum nú hlýtt á fulltrúa stjórnarflokkanna fara yfir og útskýra samkomulag sitt í landbúnaðarmálum. Og maður verður eiginlega að rifja það upp með sjálfum sér að framsögumenn 1. og 2. minni hluta voru að mæla fyrir sömu breytingartillögunum. Maður hefði getað álitið að hér stæði harður slagur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en hér er ekki einu sinni um smávægilegan ágreining að ræða milli aðila innan ríkisstjórnar heldur er um að ræða, eins og ég sagði áður, að það er verið að mæla fyrir sömu brtt. á þennan sérstaka hátt. Og til að kóróna allt saman kom hæstv. landbrh. í andsvar við fulltrúa 2. minni hluta sem var að túlka það samkomulag sem stjórnarflokkarnir höfðu gert sín á milli í landbúnaðarmálum. Þetta er . . .  ( Gripið fram í: Revía.) Þetta er revía já, þetta er sirkus og staðfestir í mínum huga að sú ríkisstjórn sem situr núna getur ekki tekið á nokkru máli þar sem um er að ræða erfið pólitísk úrlausnarefni. Hún hefur gefist upp. Hæstv. landbrh. hefur gefist upp. Hæstv. landbrh. hefur algerlega mistekist að ná nokkurri sátt um landbúnaðarmál í þessu þjóðfélagi. Það kannski skýrir það best að meðan deilur stóðu og meðan samkomulag var gert sem þeir tveir hv. þm. voru að lýsa áður, þá var hæstv. landbrh. hvergi nærri. Hann var á Vestfjörðum að sprengja. Hann var á ráðstefnu norður í landi. Þetta segir betur en nokkur orð þá sögu að það er búið að skáka hæstv. landbrh. út í horn. Hann hefur ekkert lengur um þennan málaflokk að segja.
    Ég mun spyrja hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. og væntanlega hæstv. forsrh. seinna í minni ræðu hvað fólst í því samkomulagi sem var gert milli stjórnarflokkanna fyrr í vetur til að fá það staðfest. Það gerðist reyndar og hefur verið dregið fram að að því samkomulagi gerðu átti hæstv. landbrh. og hv. formaður landbn. enga leið aðra en að bakka stöðugt út úr sínum málflutningi. Í því samkomulagi fólst nefnilega sú einfalda staðreynd að forræði yfir umfjöllun landbúnaðarmála, því sem mestu skiptir fyrir framtíð íslensks landbúnaðar á næstu árum, hvernig við ætlum að framfylgja GATT-samkomulaginu, var tekið frá landbrh. Það var sett í fimm ráðuneyta nefnd undir forustu hæstv. forsrh.
    Það er nefnilega alveg rétt sem hv. þm. Gísli Einarsson sagði hér áðan að upphaflegt samkomulag stjórnarflokkanna stendur óbreytt. Eftir að hæstv. landbrh. hafði samið um þetta fyrr í vetur við Alþfl., þá átti hann enga aðra leið. Hann hafði málað sig út í horn og hæstv. ráðherra er fastur í því horni.
    Það er síðan afar sérstakur þáttur í þessu máli sem var framganga hv. form. landbrh. á síðustu þrem vikum. Það var afar sérstakt að fylgjast með því hvernig því peði var teflt fram í þeirri skák sem þá stóð á milli stjórnarflokkanna. Því peði var hlíft á meðan sú hugmynd var enn uppi í báðum stjórnarflokkum að nota þetta mál til stjórnarslita. En eftir að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu eitt sunnudagskvöld fyrir nokkrum vikum að þeir væru enn saman í ríkisstjórn þá var því peði umsvifalaust fórnað. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þátt form. landbn. í þessu máli.
    Menn verða að átta sig á því og það verða talsmenn Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum að fara að átta sig á að sá málflutningur að ætla að baða sig í einhverju ljósi yfir því að standa í stöðugum slag við Alþfl. um landbúnaðarmál gengur einfaldlega ekki lengur. Það sjá allir hugsandi menn sem vilja skoða það mál að Alþfl. er ekki nema tíu manna þingflokkur. Alþfl., þar á meðal hæstv. utanrrh., vinnur í umboði Sjálfstfl. hér á Alþingi. Ef hæstv. landbrh. getur ekki sætt sig við þá stöðu mála sem þar er uppi og telur að hann komi ekki málum fram vegna andstöðu Alþfl. á hann ekki nema eina leið og það er að segja af sér sem ráðherra.
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. frá 3. minni hluta á þskj. 702 og nál. á þskj. 701.
    Þriðji minni hluti landbúnaðarnefndar leggur áherslu á að það er algjörlega óviðunandi fyrir íslenskan landbúnað að búa við það óvissuástand varðandi framtíð sína sem nú ríkir.
    Þriðji minni hluti leggur áherslu á að því einu er um að kenna að ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut hvað þetta mál snertir. Við minnum á að hjá þeim farsa sem var í gangi milli stjórnarflokkanna og milli einstakra ráðherra sl. ár hefði verið hægt að komast ef sú brtt. sem

hér var lögð fram á vordögum á sl. ári af meiri hluta landbn. hefði verið samþykkt. Sú brtt. við stjfrv. sem þá tók það afdráttarlaust fram og án nokkurra skilyrða að það væri landbrh. sem færi með þetta forræði óskilyrt. Það væri hægt og það væri freistandi hér en ég sleppi því að rekja lið fyrir lið hvernig hæstv. landbrh. og Sjálfstfl. hafa verið á fótta í þessu máli frá því.
    Það lá alveg ljóst fyrir strax á haustdögum þegar þing kom saman að það varð að gera breytingu á lögum. Við stjórnarandstöðuþingmenn gengum ítrekað eftir því hvernig á því stæði að ekki bólaði á frv. til að taka á þessum málum. Hæstv. landbrh. hafði nánast staðlað svar, frv. væri á leiðinni, það mundi koma á næstu dögum. En það var síðan ekki fyrr en á síðustu dögum fyrir jól að frv. kom fram byggt á því samkomulagi stjórnarflokkanna sem ég lýsti áðan og m.a. hæstv. utanrrh. hefur staðfest úr þessum stól í hverju var fólgið.
    Þetta mál var síðan keyrt í gegnum þingið og það kom fram hjá landbúnaðarnefndarmönnum stjórnarflokkanna að þetta byggðist á samkomulagi og þar mætti ekki breyta stafkrók. Það mátti ekki breyta stafkrók. Enda kom það í ljós að þetta var afar haldlítið plagg. Ekki var nú vandað meira til við samningu þess frv. en svo að þeir lögfræðingar sem hér hefur verið títt vitnað til bentu á það strax og þeir fóru að vinna með nefndinni að það væri m.a. vafasamt að sú breyting stæðist stjórnarskrána. Þrátt fyrir það sagði hv. formaður landbn. að hún væri góð, miklu haldbetri en sú tillaga sem ekki fékkst samþykkt á síðustu vordögum. Þar var einnig lögfest það sérstaka ákvæði, sem lögfræðingar sem heimsóttu okkur voru afar hissa yfir og sögðust ekki muna eftir hliðstæðu þess, að sett var inn í lagatextann að menn skyldu tala saman í ríkisstjórn um málið.
    Ég hygg án þess að ég hafi leitað það algerlega uppi að það sé einsdæmi að inn í lagatexta sé sett ákvæði þar sem sé kveðið á um að menn skuli tala saman í ríkisstjórn ef ágreiningur sé um mál.
    Ég þarf ekki að rekja í löngu máli það sem hefur gerst síðustu vikurnar. En strax á fyrsta degi eftir að þing kom saman spurði ég hæstv. forsrh. eftir því í utandagskrárumræðu hvað liði framlagningu nýs frv. eftir að dómur hafði fallið í skinkumálinu margfræga. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. svöruðu því til að frv. væri í smíðum, það væri nánast tilbúið og það yrði lagt fram daginn eftir.
    Við þekkjum öll þá sögu. Það leið hálfur mánuður þar til frv. kom fram og það var ekki burðugra en svo að hæstv. landbrh. sá ástæðu til þess í framsögu um málið að fara fram á það við landbn. að hún reyndi nú að berja í verstu brestina í frv. því hæstv. ráðherra virðist hafa gert sér grein fyrir því þá strax að frv. var meingallað. Það sýndi sig líka í meðferð nefndarinnar að þeir lögfræðingar sem nefndin kallaði til sáu strax á því ýmsa galla. Það er alltaf þannig þegar menn eru að reyna að lögfesta pólitíska málamiðlun þar sem aðilar túlka hlutina sitt á hvað og meira en það. Það hefur ítrekað komið fram í þessari vinnu nefndarinnar að menn eru að reyna að lauma einhverju í gegn og menn eru hlakkandi yfir því að þarna sé nú þetta atriði inni og hinn flokkurinn sé nú ekki búinn að átta sig á því hvernig hægt sé að túlka það. Þetta segir kannski meira en nokkuð annað um það hvernig samstarfið er og samstarfsgrundvöllurinn á stjórnarheimilinu.
    Við fórum yfir málið með lögfræðingunum og þeir lögðu fram drög að brtt. og nál. sem að okkar áliti í stjórnarandstöðunni hafði ýmsa galla og átti eftir að vinna miklu meira. Þeir lögðu síðan fram betur unnar tillögur sem við fulltrúar Framsfl. lýstum strax yfir og mjög fljótlega á eftir aðrir fulltrúar minni hlutans að þeir gættu sætt sig við og myndu styðja. Það kom hins vegar strax yfirlýsing frá Alþfl. að hann sætti sig ekki við málið í þeim búningi og það varð þess valdandi að aftur fór málið inn til stjórnarflokkanna, inn á borð til formanna stjórnarflokkanna, á meðan hæstv. landbrh. stundaði sprengingar á Vestfjörðum. Út úr því kom síðan sú málamiðlunarsamsuða sem var lögð fram í formi endanlegrar brtt. meiri hluta nefndarinnar en að vísu treystu sér ekki nema fjórir af fimm til að skrifa undir nefndarálitið.
    Það er skemmst frá því að segja að við fulltrúar í stjórnarandstöðunni gátum ekki sætt okkur við þessar tillögur. Þessar tillögur byggðust á því samkomulagi stjórnarflokkanna að hér væri eingöngu um að ræða bráðabirgðaúrræði sem væri í gildi þar til GATT kæmi til og byggðist á því að úrlausnarefni GATT-samkomulagsins væri slegið á frest.
    Í breytingartillögu þeirri sem þriðji minni hluti leggur fram og að standa auk þess sem hér talar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og hv. þm. Guðni Ágústsson.
    Í þeirri breytingartillögu sem er tekin upp úr því sem var tillaga nr. 2 frá lögfræðingunum er skýrt tekið fram að það útreikningsverð sem lagt var til grundvallar við umreikning innflutningstakmarkana samkvæmt ákvæðum hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti, GATT, og bókunum við það að það sé tekið inn sem fullgilt viðmiðunarverð við álagningu innflutningsgjalda á búvörur. Þar með eru tekin af öll tvímæli um það að eftir þessa breytingu er hægt að beita tollígildum samkvæmt GATT. Ég vil að það komi hér fram ef það getur eitthvað útskýrt málið að þeir fulltrúar utanrrn. sem við ræddum við voru á seinni stigum sammála um að það væri ekkert sem mælti á móti því að við settum inn í lagatexta núna ákvæði sem hægt væri að vinna eftir eftir að GATT-samningurinn tæki gildi. Það er þess vegna ekki lagatæknilegs eðlis eða þess eðlis að það brjóti í bága við alþjóðasamninga að þetta ákvæði var tekið út. Það er hrein pólitísk ákvörðun og staðfesting þess að Alþfl. hafði sitt fram í málinu og Sjálfstfl. átti enga vörn. Hann var búinn að semja af sér í samningum um málið fyrir áramót. Hann var þar búinn að gera það samkomulag við Alþfl. að hér væri eingöngu um að ræða bráðabirgðaákvæði þar til GATT tæki gildi og öll ákvæði um GATT-samninginn ættu að fara í fimm ráðuneyta nefndina.

    Til að staðfesta þessa skoðun mína þarf ekki annað en að líta á framsöguræðu hæstv. landbrh. þegar hann mælti fyrir breytingunni á búvörulögunum núna fyrir jólin. Þar sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Eins og segir í athugasemdum við lagafrv. er það lagt fram í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert og varða m.a. verslun með landbúnaðarafurðir. Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATT-samningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi.``
    Í þessu sambandi vil ég taka það fram til að það misskiljist ekki af því að hér er talað um fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert að GATT-samkomulagið er ekki fríverslunarsamningur.
    Síðar í ræðu sinni segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Það má vera að hv. þm. kunni að gagnrýna að frv. skuli ekki taka á þeim atriðum sem lúta að væntanlegum GATT-samningi. Skýringin er auðvitað sú að þeir samningar í einstökum atriðum liggja ekki endanlega fyrir enda þurfa þeir meiri undirbúning en svo að unnt hafi verið að setja saman fullnægjandi lagagreinar um það efni nú fyrir jólin. Ég hygg að örugg framkvæmd þeirra samninga, jafnviðurhlutamiklir og þeir eru fyrir íslenskt atvinnulíf þurfi nánari skoðunar við.``
    Eftir að hafa vitnað í þetta þá er það afar sérstakt að hafa hlustað á þá túlkun sjálfstæðismanna, m.a. hæstv. landbrh., að breytingartillögur númer tvö þar sem tekið var skýrt fram að hægt væri að verðjafna samkvæmt GATT væru í anda lagabreytinganna frá því í desember. Að sjálfsögðu gat hæstv. ráðherra ekki staðið á þessu. Að sjálfsögðu varð hann að bakka og taka tillit til þess samkomulags sem hann hafði gert við Alþfl. fyrr í vetur. Þegar maður skoðar málið í þessu ljósi, þá er á engan annan hátt hægt að útskýra framgöngu, m.a. hæstv. forsrh., í málinu á millistigum en þann að ráðherrann hafi verið tilbúinn til að nota málið í þeim pólitíska tilgangi að láta brjóta á því við stjórnarslit. Það var nefnilega í þeim herbúðum ýmislegt annað en umhyggja fyrir íslenskum landbúnaði sem lá að baki. Enda var hv. formanni landbn. fórnað þegar ákveðið var að viðhalda stjórnarsamstarfinu.
    Í breytingartillögum þriðja minni hluta er einnig lagt til að úr 72. gr. sé fellt niður það ákvæði sem ég nefndi áðan og lýtur að því að ráðherrar skuli tala saman í ríkisstjórn. Þar leggjum við til að niður sé felld eftirfarandi málsgrein. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, hvernig sú málsgrein er í þeim lögum sem samþykkt voru fyrir jólin. Hún er þannig:
    ,,Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjmrh. og hinn þriðji af viðskrh. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðast við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem greinir í 6. mgr. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Við leggjum til að eftir af þessari málsgrein standi fyrsta setningin, sem fjallar um að það skuli haft samráð við viðskrn. og fjmrn., það teljum við eðlilegt, en leggjum síðan til að seinni hlutinn, sem fjallar um málsmeðferðina og um að það skuli fara með ágreining inn í ríkisstjórn, sé felldur niður.
    Virðulegur forseti. Það væri hægt að hafa um þetta mál langa ræðu. En ég mun stilla mig um það enda veit ég að hér eru margir sem munu taka til máls í þessari umræðu. Ég get þó ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 4. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssonar. Það var til að mynda afar sérstakt að hlusta á hvernig hv. þm. ýmist vitnaði í GATT-samkomulagið eða Úrúgvæ-þáttinn, þuldi upp prósentutölurnar fyrir tollígildin eins og þær lægju fyrir sem staðreyndir sem þær vissulega gera en byggði síðan aðalþátt málflutningsins á því að það væri ekki hægt að setja inn í íslensk lög ákvæði um milliríkjasamning sem ekki væri búið að gera. Þetta er að mínu mati ekki hægt. Annaðhvort liggur þessi samningur fyrir eða ekki og staðreynd málsins er sú að hvað varðar landbúnaðinn, hvað varðar tollígildin, þá liggur þessi samningur fyrir. Það er hins vegar rétt að það er ekki vitað enn þá hvenær hann tekur gildi. Tilboð Íslands liggur fyrir og það liggur ekkert fyrir annað en að því verði gengið. Ef það er svo eins og hv. þm. segir hér í frammíkalli að ekki sé enn þá búið að samþykkja þá er það óheiðarlegur málflutningur hér úr ræðustól á Alþingi að tíunda prósentutölurnar í tollígildunum þannig að menn verða að vera eilítið sjálfum sér samkvæmir í málflutningi hér.
    Ég vil einnig nefna það að þær tölur sem hv. þm. nefndi um tollígildin allt upp í 500 eða 600%, ég veit ekki hvað hv. þm. var að reyna að sanna með því, en í mínum huga segja þessar tölur fyrst og fremst eitt. Þær segja þvílíkur fáránleiki þau heimsmarkaðsverð eru sem eru lögð til grundvallar því að ef hv. þm. á ferðalögum sínum um Evrópu færi inn í matvöruverslun og keypti þar í matinn þá fyndi hann engan verðmun upp á 500--600%. Hann mundi vissulega finna verðmun en úr þeim verðmun hefur dregið á síðustu árum.
    Ég get sagt hv. þm. til upplýsingar að ég gerði smátilraun í sumar og tók mér á leigu litla íbúð í Þýskalandi. Ég hélt að það væri ágætt að láta á það reyna hvernig væri að búa í fyrirheitna landinu, í Evrópusamfélaginu og ég gekk eins og hver annar innfæddur í verslunina á horninu sem var frá einni af stóru matvörukeðjunum í Þýskalandi og keypti í matinn. Vissulega býst ég við að heildarkarfan væri eitthvað ódýrari en hér á landi en sumar landbúnaðarvörur voru þar á nákvæmlega sama verði og hér heima. Þar voru engin 500 eða 600% sem skildu á milli. Það er nefnilega svo að þessar tölur eru eingöngu reiknitölur. Þetta eru eingöngu reiknistærðir sem hafa ekkert með það að gera hvernig verðlag endurspeglast milli einstakra landa og þetta verða menn að taka inn í reikninginn þegar um þetta er rætt.
    En ég vil benda hv. þm. á að það eru þessar tölur, það eru þessar viðmiðanir sem m.a. hæstv. ráðherrar Alþfl. nota, m.a. hæstv. viðskrh. notar þegar hann fær Hagstofustofnun háskólans til að reikna út fyrir sig hvað íslenskir neytendur gætu grætt á því ef allar landbúnaðarvörur væru fluttar inn. Það finnast hvergi í heiminum neytendur sem njóta þess verðs sem notað er til viðmiðunar. Þetta er allur heiðarleiki Alþfl. þegar kemur að umræðu um landbúnaðarmál. ( GÁ: Nefndu ekki heiðarleika í þessu sambandi.) Það kann að vera rétt að það sé hálfgerður glannaskapur eins og hér kom fram í frammíkalli að nefna heiðarleika í tengslum við umræðu og ummæli Alþfl. um landbúnaðarmál. ( Umhvrh.: Þið gætuð kannski látið Seðlabankann reikna þetta betur út.) En því miður er þetta staðreynd málsins. Ég sá fyrir nokkru þær tölur sem þarna eru lagðar til grundvallar. Í mjólkinni er það lagt til grundvallar að mjólkurlítinn kosti 10 kr. íslenskar hvort heldur um er að ræða nýmjólkina eða fullunnar vörur. Síðan leika hagfræðingar vestur í háskóla sér að því að umreikna og framreikna hvað fjölskyldur á Íslandi gætu hagnast á því á þessum verðum en þetta eru verð sem hvergi eru til. Það er ekkert mikið þó að við sem teljum okkur vilja íslenskum landbúnaði vel höfum áhyggjur af því ef svo er komið að yfirstjórn landbúnaðarmála hér á landi er komin í hendur þessara aðila.
    Það var mikið rætt um það í síðustu viku að við Íslendingar kynnum að vera að einangrast á alþjóðavettvangi og vissulega er hætta á því ef búið er að breyta utanrrn. í landbrn. og þeir sérfræðingar sem þar eiga að vera að verja okkar hagsmuni eru settir í það að semja langlokunefndarálit. Það er lítið gert í að verja hagsmuni okkar í Frakklandi á meðan. ( EgJ: Þeir voru nú frá fjórum ráðuneytum.) Hv. formaður landbn. segir að þeir hafi verið frá fjórum ráðuneytum. Það kann að vera en ætli handbragðið sé nú ekki að mestu frá utanrrn. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þjónusturáðuneyti eins og utanrrn. telur að það eigi að vera, og kemst upp með það, yfirráðuneyti landbúnaðarmála einnig.
    Virðulegi forseti. Ég mun hér að lokum leggja nokkrar spurningar fyrir þá hæstv. ráðherra sem hér sitja, fyrst til hæstv. landbrh.
    1. Hvað fólst í samkomulagi stjórnarflokkanna sem lagabreytingin í desember var byggð á? Hvað fólst í því samkomulagi varðandi yfirráð innflutningsmála og þá sérstaklega varðandi Úrúgvæ-lotu GATT?
    2. Hvað líður starfi fimm ráðuneyta nefndarinnar sem á að vinna að lagabreytingum vegna Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna?
    3. Hvernig hyggst ráðherrann, ef hann hefði eitthvað um það að segja, beita tollígildum samkvæmt GATT? Hvað líður vinnu innan ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að framkvæma lágmarksaðganginn samkvæmt GATT?
    Ég minni á að að öllu öðru óbreyttu getur hæglega svo farið að þessi samningur taki gildi um næstu áramót, eftir níu og hálfan mánuð.
    Spurningar til hæstv. utanrrh. eru svipaðs eðlis:
    1. Hvað fólst í samkomulagi stjórnarflokkanna frá því fyrir jól um forræði landbrh. og í öðru lagi um það hvernig verði tekið á Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna?
    2. Hver er stefna ráðherrans varðandi beitingu tollígilda samkvæmt Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna og hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að ákvæðunum um lágmarksaðgang verði beitt?
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda hér lengri ræðu en það verður afar fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls, fylgjast með því hvernig það ,,samkomulag`` verður haldið sem þeir þingmenn, hv. formaður landbn. Egill Jónsson og hv. þm. Gísli Einarsson ,,innsigluðu`` með ræðum sínum hér áðan. Málið er væntanlega það eins og hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson sagði þegar þetta lá fyrir. Samkomulagið fólst ekki í neinu öðru en því að vera sammála um að deila áfram. Ég hygg að reynslan muni sýna að hér standa áfram sömu deilurnar og verið hafa fram að þessu milli stjórnarflokkanna. Á meðan er landbúnaðurinn í algerri óvissu um það starfsumhverfi sem hann á að fara að vinna eftir, hugsanlega eftir níu og hálfan mánuð.