Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:14:55 (4996)


[17:14]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins bæta því við svar mitt áðan að varðandi lágmarksaðganginn þá var tilboð okkar í samræmi við tilboð Norðmanna eins og hv. þm. er kunnugt.
    Varðandi hið síðara atriði, þá er það ekkert leyndarmál hér að það er allt annað yfirbragð og allt annar tónn í Sjálfstfl. í sambandi við GATT-samninga og hvernig að þeim skuli staðið heldur en í Alþfl. Við viljum standa að þeim samningum með þeim hætti að það verði breitt samkomulag um þá og verði traust á framkvæmdinni. Við sjálfstæðismenn höfum ekki notað GATT-samningana til að efna til óeirða, hvorki með eða móti ríkisstjórninni eða til tortryggni meðal þegna þjóðfélagsins, enda teljum við að nauðsynlegt sé þegar við erum að stuðla að frjálsari viðaskiptum en áður, greiða fyrir frjálsari viðskiptum, að menn undirbúi slíka framkvæmd vel og standi vel að henni.
    Ég vil líka segja við hv. þm. að sú mikla vinna sem ríkislögmaður hefur nú innt af hendi í samvinnu við landbn. og raunar forsrh. lýtur m.a. að því að gera sér grein fyrir sumum þáttum þeirra mála sem lúta að því hvernig við þurfum að undirbúa löggjöfina fyrir gildistöku hugsanlegs GATT-samnings.
    Það er alveg ljóst að það mun ekki endurtaka sig sem gerðist á þinginu 1992--1993 að hlaupið verði svo hratt með einstaka þætti löggjafarinnar eða alþjóðlegra samninga að fyrir vangá komi annað út úr löggjafarstarfi þingsins en til er ætlast. Það er alveg ljóst að eftir GATT-samninga verður innflutningur landbúnaðarmála áfram í höndum landbrn. og það er alveg ljóst að frá þeim málum verður gengið með þeim hætti að engin hætta er á því að slys verði, enda er það í samræmi við þá samþykkt sem ríkisstjórnin gerði í janúarmánuði 1992, sem öll ríkisstjórnin stóð saman og hefur verið kynnt, bæði af mér og hæstv. utanrrh. um allt land og við þau orð hljótum við báðir að standa.