Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:21:09 (5002)


[18:21]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú staðfesti hæstv. ráðherra það sem ég sagði áðan. Hann staðfesti að þessi viðmiðunarverð eru hvergi til. Það sem ég sagði í mínu andsvari var að þetta eru sömu tölurnar og ráðherrar Alþfl. nota þegar þeir reikna hvað innflutningsverndin kostar íslenska neytendur og leyfa sér að skipta út á hverja fjölskyldu. Það hefur hæstv. viðskrh. gert og, eins og hæstv. utanrrh. er hér búinn að upplýsa, lagt til grundvallar verð sem hvergi er til. Þetta er málflutningur sem er ekki ráðherrum sæmandi.
    Ég vil síðan ítreka spurninguna sem ég bar fram. Hún var sú: Hver fer með tollígildi eftir að GATT-samningurinn er kominn á? Hvar verða þær heimildir vistaðar í stjórnkerfinu að mati ráðherrans?