Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:28:00 (5007)


[18:28]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég árétta það að réttaróvissu hefur verið eytt um þýðingarmestu mál. Bannheimildir landbrh. skráðar í viðaukum, sem hafa lagagildi, eru ótvíræðar. Skilgreining á heimild til verðjöfnunargjaldtöku á þessu tímabili eru sæmilega skýrar. Á framtíðina, þ.e. framtíð tollamála eftir gildistöku GATT, mun ekki reyna fyrr en GATT-samningar hafa verið útkljáðir á Alþingi og þeir tekið gildi. Ég tel því að réttaróvissan sé ekki mikil að því er varðar framkvæmdina fram að gildistöku GATT eftir að það tókst að leiðrétta frumvarpið sjálft. Þótt menn leggi réttilega áherslu á það að greinargerðir og þingræður séu lögskýringargögn þá er náttúrlega meginatriðið lagatextinn sjálfur. Um hann er samkomulag. Þess vegna held ég að menn þurfi ekki að mikla þetta fyrir sér.
    Að því er varðar það hvort hæstv. forsrh. túlki þetta á einhvern annan veg þá hef ég ekki séð eða heyrt hans túlkun í þessum álitamálum. En ég hygg að dómarar og dómstólar, ef á reyndi, sem myndu fara ofan í saumana á því hvað væri rétt túlkun á framkvæmd milliríkjasamninga myndu kanna það mjög vendilega og ekki byggja bara á greinargerðum formanns landbn.