Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:36:21 (5013)


[18:36]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er upphaf þessa máls að eftir stjórnarskiptin síðustu 30. apríl 1991, í maímánuði eftir þau stjórnarskipti, þá kom það upp á ríkisstjórnarfundi að fulltrúar landbrn. hefðu ekki verið hafðir með í ráðum í sambandi við þær samningaumleitanir og samningaviðræður sem farið höfðu fram milli Íslands innan EFTA við Evrópubandalagið. Það var ákveðið þegar á þeim fundi að til engra skuldbindinga gæti komið, engar viðræður gætu orðið þjóða á milli um landbúnaðarmál nema fulltrúar landbrn. ættu þar fulltrúa og slíkar ákvarðanir væru teknar, ekki í samráði við landbrn. sem er fagráðuneytið, heldur yrði það samkvæmt ákvörðun landbrn., að öðrum kosti ríkisstjórnar, hvernig staðið yrði að þeim skuldbindingum sem við Íslendingar gerum í sambandi við alþjóðlega samninga. Því miður voru dæmi þess frá síðustu ríkisstjórn að slíkar skuldbindingar voru teknar fyrir hönd íslenska ríkisins án þess að um það væri samkomulag innan ríkisstjórnar eða jafnvel kunnugleiki en fyrir það á að hafa verið girt með ríkisstjórnarfundinum sem haldinn var í ráðherrabústaðnum í maímánuði 1991. Það er upphaf þessa máls.
    Það var rétt sem fram kom hér áðan að við stóðum gagnvart garðyrkjubændum upp við vegg vegna þess að það hafði verið samið og gengið nánast frá svokölluðum cohesion-lista án þess að landbrn. og án þess að grænmetisbændur eða ylræktarbændur gætu komið þar nokkurs staðar nærri. Ef til samningsgerðar milli EFTA og Evrópubandalagsins hefði komið þá á miðju sumri eins og menn spáðu fyrir kosningarnar vorið 1991 þá hefðum við orðið að sæta þeirri niðurstöðu sem náðist í síðustu ríkisstjórn. Þetta mál var síðan tekið upp af okkur í landbrn. Við héldum fund með garðyrkjubændum, ylræktarbændum, eins og þingmönnum á að vera kunnugt og þeir áttu síðan fund með utanrrn. og það var mest vegna vinsemdar þýska landbrh., Kiechle, sem okkur tókst að ná fram leiðréttingum nokkrum á þeim cohesion-lista sem lá fyrir um stjórnarskiptin síðustu. Þetta er sagan á bak við það.

    Ég vil líka segja út af þeim ummælum sem hafa fallið hér í dag, ekki aðeins frá hæstv. utanrrh. heldur ýmsum öðrum, út af stöðu ylræktarinnar og grænmetisins þá stöndum við frammi fyrir því núna gagnvart þeim vörum sem eru á cohesion-listanum að við verðum að leyfa innflutning á niðurgreiddum vörum frá Hollandi og ýmsum öðrum þjóðum. Það er talið að niðurgreiðslan á hinum hollensku samkeppnisvörum sem eru fluttar hingað inn til landsins nemi um 10% af verðinu en samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eins og ég skil hann, ég er að vísu að láta athuga hvort einhvers staðar sé smuga sem við getum lætt okkur inn samkvæmt samningunum eins og þeir eru túlkaðir en ég tek það fram að ég er að láta gera sérstaka athugun á því, er okkur ekki heimilt að leggja á verðjöfnunargjöld til að mæta niðurgreiðslum Evrópubandalagsins á þeim vörum sem fluttar eru inn til landsins nú á þessum vetri. Þetta er þeim mun óþokkalegra sem það liggur fyrir að við Íslendingar sjálfir höfum skattlagt í innflutningi aðföng til garðyrkjunnar. Garðyrkjan er ekki niðurgreidd um eina einustu krónu hér á landi. Það er auðvitað alveg ljóst að á sama tíma og orka er niðurgreidd til okkar samkeppnisþjóða þá getum við ekki okrað á orkunni til hinnar íslensku framleiðslu. Þessir hlutir eru algjörlega ljósir. Þegar verið er að tala um það að á þessum vörum sé 30% tollur þá erum við að byrja á því að tala um það að vega upp niðurgreiðslurnar erlendis frá. Það sem er kannski alvarlegast í þessu máli er að framkvæmdin með innflutningnum er ekki öruggari en svo að fyrir hefur komið að í krafti þessara samninga við Evrópska efnahagssvæðið hafa verið fluttar inn vörur sem eru frá Suður-Ameríku sem er utan svæðisins sem er auðvitað hreint samningsbrot. Það er þess vegna mjög mikilsvert þegar við erum að ræða milliríkjasamninga almennt og við erum að ræða um meira frjálsræði milli landa þá erum við ekki bara að ræða um rétt innflytjandans íslenska til þess að koma með erlendar vörur inn í landið heldur erum við líka að ræða um það hvernig við getum tryggt að íslenskir framleiðendur, íslenskir keppinautar, geti treyst þeim ákvæðum sem eru í milliríkjasamningunum þeim til trausts og halds.
    Ég vil líka segja af þessu tilefni að það lá alveg ljóst fyrir samkvæmt samkomulaginu í desember að heimild til verðjöfnunargjalda á grænmetisvörum var færð til landbrn. og samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir gildir sú hin sama regla hvað sem milliríkjasamningum líður.
    Ég vil af þessu tilefni rifja það aðeins upp að í 1. gr. laga . . .   ég er nú ekki með rétt lög ( Gripið fram í: Ertu með vitlaus lög?) Ég er að vísu með breytingu á búvörulögum, en það er sama, ég er ekki með rétt lög við höndina en þess í stað ætla ég að rifja upp það sem ég sagði í framsöguræðu minni fyrir lagabreytingunni þann 17. des. sl. og ég vil minna á að það var Sighvatur Björgvinsson, hæstv. ráðherra, sem stóð að þeirri samningsgerð fyrir Alþfl. og það hafa engar athugasemdir verið gerðar um þann skilning og þá túlkun sem ég hafði á lagafrv. þá og því sem að því vék. En þá sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er kveðið á um að ráðherra skuli við innflutning landbúnaðarvara vera heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld sem nauðsynleg eru til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara og skuli ráðherra ákveða með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni og sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning.
    Það er ljóst samkvæmt þessum orðum lagatextans að hér er bæði fjallað um unnar og óunnar innfluttar búvörur. Það er skýrt tekið fram í greinargerð og er þessi texti alveg afdráttarlaus í þeim efnum.
    Ef við veltum fyrir okkur samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þá er þar verið að tala um smjörlíki með 10--15% mjólkurfitu m.a. svo og júgúrt og raunar allar unnar búvörur sem fluttar eru til landsins og falla undir búvörulögin.``
    Ég vil líka segja af þessu tilefni að þegar við erum að setja löggjöf í tengslum við það að við erum að fella niður hömlur og við erum að greiða fyrir viðskiptum þá erum við ekki að velta fyrir okkur hvort Alþfl. eða Sjálfstfl. hafi unnið í einhverju orðaskaki sín á milli. Málið snýst ekki um það. Málið snýst ekki um það hvort ég hef rétt fyrir mér þegar við erum að tala um samkomulagið í desember eða hvort hæstv. utanrrh. hefur rétt fyrir sér. Þeir menn sem standa fyrir utan okkur verða bara að velta fyrir sér, hvorum trúi ég betur? ( Gripið fram í: Nei.) Við tveir verðum að sætta okkur við þann dóm að fólk hlýtur að vega það og meta hvor okkar sé trúverðugri í þeim efnum ( JGS: Þú eða?) hæstv. utanrrh. (Gripið fram í.) Hitt skiptir auðvitað höfuðmáli að við áttum okkur á því að hverju við stefnum, hvað við séum að gera. Það sem við erum að gera er að tryggja íslenskri framleiðslu þann rétt sem henni er áskilinn, ekki aðeins í fríverslunarsamningum, heldur líka í almennum samskiptum þjóða á milli. Ef einhver maður heldur að það séu frjáls viðskipti, t.d. með landbúnaðarvörur, og sé einkenni frjálsra viðskipta að önnur þjóðin geti niðurgreitt sína framleiðsluvöru en hin þjóðin megi ekki leggja á verðjöfnunargjöld sem því nemur þá er hvorki hægt að kenna það við fríverslunarsamninga né heldur frjálsa verslun. En sú er staðan sem við stöndum nú í dag frammi fyrir í sambandi við innflutning á grænmeti. En við því var ekki gert, þessar skuldbindingar höfðu verið gerðar, inn á þetta hafði verið gengið fyrir síðustu stjórnarskipti. Það má raunar segja að viðleitni okkar núna í landbrn. sé sú að reyna að ná fram vissum tökum á þessum innflutningi, ákveðnum hlutum, til þess að við getum ekki aðeins styrkt undirstöður íslensks landbúnaðar, heldur líka þess iðnaðar sem byggist á landbúnaði og ég vil líka til þess að við getum tryggt það að íslenskar hendur fái einhverju að sinna hér á landi. Því þó ég sé sammála því að það væri æskilegt ef við getum fjölgað t.d. eins og heildsalar sögðu um 3.000 í verslunarstétt þá erum við auðvitað ekki reiðubúnir að gera það ef tilgangurinn með því er eingöngu að fjölga þeim sem vinna að verslun innan lands eða fjölga þeim sem vinna að innflutningsversluninni. Við getum því aðeins sætt okkur við að markmið af því tagi sé æskilegt að þessi aukni fjöldi verslunarmanna spreyti sig á erlendum mörkuðum til að koma íslenskum framleiðsluvörum þangað á markað, til sölu, að atorkan snúist að því.
    Ég get tekið fullkomlega undir það sem utanrrh. segir þegar hann talar um það að í frjálsum viðskiptum þurfum að greiða fyrir innflutningi þá viljum við auðvitað reyna að greiða fyrir því að bændur hafi tök á því að framleiða ódýrar sína vöru. Bændur hafa staðið við sinn hlut. Þeir hafa lækkað sínar vörur miklu meira en ákvæði voru um í þeim búvörusamningi sem þeir þrír fyrrv. ráðherrar stóðu að sem eru í þingsalnum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og sá sem er á milli þeirra, fyrrv. og núv. hæstv. utanrrh. Þegar hann var að tala um það áðan að við verðum að losa landbúnaðinn úr þeim höftum sem hann er í þá vil ég taka undir það. Ég tek undir að við erum að reyna að finna leiðir til þess. Þá verður líka Alþfl. að vera opinn fyrir því að þær leiðir, sem ég treysti mér til að fara í þeim efnum af því að ég ber ábyrgð á stefnumörkun í landbúnaði, að vera opinn fyrir því að greiða fyrir því að slík frumvörp nái fram að ganga, a.m.k. til þingsins, til þess að það geti skorið úr þeim málum. Og þá vil ég raunar líka segja, þeir eru alveg afdráttarlausir búvörusamningarnir um sauðféð, alveg afdráttarlausir um það að ef raskað verði innanlandsmarkaðinum á kjötvöru þá beri að taka þann samning til endurskoðunar og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að bændur verði skaðlausir. Þetta er samningur við bændur og við verðum að gera svo vel að hlíta því, við verðum að standa við skriflegan samning sem ríkisstjórn hefur gert við bændasamtök landsins.
    Þetta er auðvitað alveg ljóst. Það er líka alveg ljóst þegar við erum að þrátta um það í hvaða ráðuneyti verðjöfnunargjöldin eiga að vera. Það er þannig á Norðurlöndum að þau eru í höndum landbrn. Mér er ekki kunnugt um hvernig þessi mál fóru Finnlandi. Málið var fyrir þinginu, ég athugaði ekki að gá hvernig málin standa þar rétt í augnablikinu. Þar voru menn og eru að tala um það að færa þetta vald yfir til landbrn. Þróunin er öll þannig og þróunin er þannig vegna þess að þar er fagþekkingin á því sem við erum að tala um.
    Þegar menn eru að tala um það og reyna að gera mig tortryggilegan með því að í minni baráttu fyrir landbúnaðinum þá vilji ég ekki hugsa um neytendur, þá er það algjörlega út í hött. Bændur eru sjálfir neytendur. Hvernig stendur á því að slíkur verðmunur er á ýmsum aðföngum bænda sem frjáls innflutningur er á? Að við getum bent á tífaldan og fimmtánfaldan mun á sumum hlutum? Hvernig stendur á að bændur eru t.d. að kaupa varahluti í dráttarvélar sínar erlendis? Biðja kaupmenn eða flugfreyjur eða ferðalanga að kaupa varahlutina í búð erlendis nema vegna þess að kostnaðurinn sem leggst á við innflutninginn hér á landi er óheyrilegur. Að sumu leyti á þetta rætur sínar að rekja til þess að við erum að reyna að ná tekjum í ríkissjóð með óréttlátum og röngum sköttum. Sumpart er þetta vegna þess að álagningin er of há. Það er minna um það talað. Og jafnvel sömu mennirnir og tala um það að hér sé verð á svínakjöti og kjúklingakjöti hátt og hafi verið hátt hin síðustu ár hafa ekki viljað ganga jafnlangt og ég í því að lækka skattheimtuna einmitt á þessi matvæli til þess að gera hana lægri til neytenda og þá er ég að tala um innlenda framleiðslu en ekki innflutta. Þegar við erum að tala um stuðning við landbúnaðinn, eins og menn gera oft, þá man ég ekki betur en hæstv. viðskrh. hafi notað það heimsmarkaðsverð, sem nú er búið að segja að sé ekki til, til þess að gera mig tortryggilegan hjá barnafólki og ýmsum öðrum með því að segja að ég vildi koma í veg fyrir það að fátækt fólk fengi kjöt að borða og það var meira að segja upp á þúsund króna tiltekið sem ég tók frá fjögurra manna barnafjölskyldu hér á landi. ( JGS: Er þessi maður með í ríkisstjórn?) Þetta var byggt á könnun frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og þykir sú skýrsla ekki merkilegur pappír þegar komið er út fyrir landsteinana.
    Auðvitað má því tala um þessi mál í margvíslegum tóni. En það er alveg ljóst að við erum ekki bara að tala um bændur, við erum að tala um neytendur, við erum að tala um íslenskar hendur, við erum að tala um íslenskan matvælaiðnað og við erum líka að tala um útflutning. Það væri hörmulegt nú þegar við sjáum hilla undir það að við Íslendingar höfum kannski möguleika á því að standa fyrir hollustuútflutningi á hollustukjöti, hollustufæði, til annarra landa --- af því að menn vilja greiða meira fyrir þau matvæli sem eru héðan en annars staðar af því að við notum aðferðir við að framleiða okkar matvæli sem eru í samræmi við fyllstu kröfur sem gerðar eru í veröldinni sem leggja upp úr heilbrigði í dýrum og góðri meðferð matvæla og að við notum ekki lyf til þess að örva vöxtinn --- ef við einmitt á þessari stundu brygðumst gagnvart þessari atvinnugrein. Auðvitað gengur það ekki, auðvitað getur slíkt ekki gengið og við hljótum að standa fast á okkar rétti.
    Um GATT-samningana er það að segja sem ég sagði áðan. Það mun ekki endurtaka sig að Alþingi samþykki slíka alþjóðlega samninga nema áður liggi alveg skýrt fyrir hvaða áhrif þeir muni hafa á íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf. Ég er alveg sannfærður um það að það eru fleiri þingmenn en ég sem munu ekki geta unað slíku. Þess vegna var það alveg sjálfsagt af minni hálfu og ég var ekki að hætta hagsmunum bænda að einu eða neinu leyti né Íslendinga sjálfra, því í þessum efnum fara hagsmunir Íslendinga og hagsmunir bænda saman og neytenda líka, þegar ég samdi um það að við skyldum setja í nefnd fimm ráðuneyta hvernig við skyldum undirbúa löggjöfina vegna GATT-samninga og standa að þeim. Okkur liggur ekkert á, við höfum nógan tíma og aðalatriðið er að við vitum hvað við erum að gera og menn koma ekki hér upp og segi að það megi túlka þann lagastaf sem við ætlum að setja með mismunandi hætti.
    Ég vil líka segja að í þeirri merkilegu vinnu sem landbn. hefur unnið í sambandi við sínar brtt. og sitt nefndarálit, þá tók ég það alveg skýrt fram í frumræðu minni að það væru efasemdir um það að frv. stæðist eins og það væri. Ég bað hv. nefnd sérstaklega um að ganga úr skugga um að þar væru ekki einhver vafaatriði sem væri hægt að teygja og toga eftir á. Um leið og ráðist er að Agli Jónssyni, formanni landbn., um það hvernig hann stóð að vinnubrögðum í þessu máli er vegið að mér sjálfum því ég er mjög þakklátur honum fyrir það hvernig hann stóð að verki og efast um að aðrir hefðu gert það betur.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þeir lögfræðingar sem sömdu lagatextann eru sömu mennirnir og skrifa skýringar í nefndaráliti 1. minni hluta um lagatextann. Þeir eru að skýra það sem þeir sjálfir segja og meiri hluti flm. skrifar undir. Þannig að í mínum huga er það alveg ljóst að við erum að fjalla um brtt. með þeim skilningi sem í því nefndaráliti segir. Það er minn skilningur og sem landbrh. mun ég fylgja málinu eftir með þeim hætti.
    Ég vil hins vegar láta í ljósi þá skoðun mína og vil líka lýsa yfir fyllsta trausti á þessum lögfræðingum, ríkislögmanni og hæstaréttarlögmönnunum Tryggva Gunnarssyni og Sveini Snorrasyni Ég tel raunar að þessir tveir hæstaréttarlögmenn, Tryggvi Gunnarsson og Sveinn Snorrason, séu meðal virtustu lögmanna landsins.
    Ég sé ekki, herra forseti, að ég hafi ástæðu til að segja um meira þetta á þessu stigi, en taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram.