Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:11:09 (5023)


[19:11]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað hægt að endurtaka þau orð að réttaróvissu eigi ekki að eyða. Það er þvert á móti verið að eyða réttaróvissu með þessu frv., lagatextinn liggur skýr fyrir. Túlkun hans liggur skýrt fyrir af þeim mönnum sem settu hann saman og kemur fram í áliti 1. minni hluta landbn. þannig að réttaróvissu er eytt.
    Ég ítreka hins vegar eins og ég sagði áðan að það hefur verið uppi ágreiningur um það milli Sjálfstfl. og Alþfl. með hvaða hætti skuli tæknilega staðið að því að greiða fyrir því að við getum aukið frelsi og viðskipti með landbúnaðarvörur. Ég hef haft það að leiðarljósi að reyna að gera það þannig að íslenskir bændur hafi svigrúm og tíma til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Það þarf að gefa þeim aukið svigrúm, meira frelsi til framleiðsluathafna og það er að því sem við viljum vinna.