Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:22:07 (5083)


[17:22]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í sambandi við þetta síðasta þá minni ég hv. þm. á það að efh.- og viðskn. hefur sérstaklega bókað um það að ekki hafi staðið til að gera breytingu í þessum efnum varðandi landbúnaðarþáttinn þegar sú breyting sem hv. þm. nefndi var rædd í þeirri nefnd og það hefur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson jafnframt gert grein fyrir.
    Varðandi hins vegar hitt atriðið sem hv. þm. nefndi, um það hvort það væri til þess fallið að afgreiða lög með skýrum hætti að nefndarálit stönguðuðust á að einhverju leyti, þá er það þannig að í þessu tilfelli flytja þeir aðilar sem hv. þm. á við sameiginlegar breytingartillögur, nálgast þær breytingartillögur nokkuð úr annarri átt eða sinn úr hvorri áttinni. Það breytir ekki því að lagagreinin, brtt. er skýr og ljós og þegar lagatexti er ljós, þá þarf ekki lögskýringargögn við að því leyti sem lagagreinin er ljós. Og ég segi líka: Er það virkilega svo að aðrar lagagreinar sem við höfum afgreitt héðan, hv. þm., hafi fengið jafnrækilega skoðun frá orði til orðs af jafnmörgum þingmönnum eins og þessar greinar? Þekkjum við mörg dæmi þess? Ég hygg ekki. Og því miður er það nú svo varðandi landbúnaðarlagasetningu eins og prófessor Sigurður Líndal hefur bent rækilega á að þar hefur ekki alltaf og ætíð, og kannski sjaldnar en menn hefði grunað fyrr, fyrir samantekt Sigurðar Líndals prófessors, verið vandað jafnrækilega til og nauðsyn krafði. Og það var kannski þess vegna að lögin frá 1985 voru ekki í nógu vönduðum búningi. Ég vek athygli hv. þm. á því að lögfræðingar höfðu verið að deila um þessi efni og sent álitsgerðir til fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar löngu fyrir breytingarnar 1992. Það lágu fyrir slík gögn í herbúðum ríkisstjórnarinnar.