Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 19:46:32 (5101)


[19:46]
     Frsm. 2. minni hluta landbn. (Gísli S. Einarsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er mjög friðsamur maður, en stend hér í deilu sem ég komst ekki hjá. Ég fagna því að það kom ekkert fram í ræðu hv. formanns landbn. sem hnekkir þeim lagatexta sem við stöndum saman að.
    Það stendur ekki steinn yfir steini í ræðu hv. þm. Egils Jónssonar um gagnrýni mína á hans vinnubrögð. Hann kom með samtals þrjú breytileg frumvörp í landbn. á jafnmörgum þriðjudögum til viðbótar við frv. hæstv. landbrh. Á það fjórða var fallist og settur fram sá lagatexti sem sá sem hér stendur samþykkti. Það var ítrekað reynt að fá formann nefndar til samstarfs en án árangurs. Sama gilti um nál.
    Þetta tel ég nægjanlegt að nefna eftir þá löngu þulu sem hér var flutt, ef svo má nefna þá ræðu sem hv. þm. Egill Jónsson flutti hér. Honum var margboðið upp á að semja nál. með mér og lögfræðingunum eða starfsmönnum nefndarinnar en því var gersamlega hafnað af formanni virðulegrar landbn.