Framleiðsla og sala á búvörum

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 14:35:52 (5209)


[14:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er þannig að þegar þeir greiða atkvæði um þessa grein, hv. þm. Egill Jónsson og hv. þm. Gísli S. Einarsson, þá telur hv. þm. Egill Jónsson sig vera að samþykkja það að landbrh. fái heimildir til að verðjafna fyrir samsettum vörum, bæði gagnvart innlendum og erlendum landbúnaðarhráefnum í vörunni og greiðir því atkvæði. En hv. þm. Gísli S. Einarsson telur sig vera að samþykkja það að landbrh. fái eingöngu heimild til að verðjafna fyrir innlendu hráefnisþáttunum í samsettum vörum. Það er það sem hér er að gerast. Lagatúlkun Alþfl. er önnur en Sjálfstfl. en síðan ætla báðir að greiða eins atkvæði.
    Þetta er ekki hægt. Þetta gengur ekki svona. Þetta er einhver mesta niðurlæging sem ríkisstjórn og stjórnarliðar hafa nokkurn tíma sýnt sjálfum sér að bjóða mönnum upp á afgreiðslu við þessar aðstæður. ( Gripið fram í: En þeir spila nú báðir á harmoníku.) Þeir kunna að vísu báðir eitthvað á harmoníku, en það hjálpar þeim ekki mikið í þessu efni og það verður ekki tekið sem málsgagn í hæstaréttardómum framtíðarinnar að þeir geti gutlað eitthvað á harmoníku, formaður og varaformaður landbn. (Forseti hringir.) Þetta

er algjör hneisa, hæstv. forseti, og þinginu til skammar. Við munum ekki taka þátt í afgreiðslu tillögunnar eins og hér er að málum staðið, en munum að sjálfsögðu krefjast þess að landbn. taki málið til umfjöllunar á nýjan leik milli umræðna.