Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:08:43 (5261)


[17:08]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hefja hér kaldastríðsdeilur við hv. 3. þm. Reykn. En það mætti kannski rifja það upp fyrir honum að árið 1945 lauk heimsstyrjöldinni síðari. Sælir sigurherrar skiptu Evrópu á milli sín. Síðan höfum við búið við það þar til fyrir örfáum árum. Ef hv. þm. er að spyrja mig um það hvort ég vilji að ein þjóð níðist á annarri þá er svarið nei. Hins vegar býst ég við að það sé allflókið mál að losna við þúsundir og hundruð þúsunda útlendinga sem beðið hafa í Eystrasaltslöndunum í 50 ár. Ég held að það sé ekkert sem hægt sé að gera á mjög stuttum tíma. Við Íslendingar höfum mótað okkur alveg ákveðan stefnu í þeim málum og haft reyndar frumkvæði um að styðja við bakið á þessum löndum.
    En í öllum bænum þegar við erum að ræða um íslensk utanríkismál nú vil ég mælast til að menn hefji ekki upp svartagallsraus kalda stíðsins. Ég held við verðum þá að fá pláss fyrir það í umræðu á Alþingi lengri en svo að hún rúmist í andsvörum og svörum við þeim. En ég get alveg huggað hv. 3. þm. Reykn. að ég vil ekki og hef aldrei stutt að nein þjóð níðist á annarri, ef það var það sem hann spurði um.