Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:25:06 (5265)


[17:25]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir hennar ágætu ræðu en þar sem hv. þm. vék sérstaklega að samstarfi Norðurlandanna og hlut þeirra í Evrópusamstarfinu og okkar stöðu gagnvart norrænni samvinnu með hliðsjón af stækkun Evrópusambandsins og vísað er til umræðna á norrænum vettvangi um þetta mál þá langaði mig til að spyrja hv. þm. hvað hann segi um þá skoðun sem fram kemur hjá dönskum prófessor í alþjóðastjórnmálum við Árósarháskóla, Nikolaj Petersen, þegar hann heldur því fram að Norðurlöndin kunni að verða andstæðingar innan Evrópusambandsins því að málum sé þannig háttað að hagsmunir þeirra falli síður en svo saman þegar um er að ræða landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og iðnaðarmálefni, og hvort það sé nokkuð sem hv. þm. hefur orðið vör við á fundum Norðurlandaráðs sem ýti undir að þessi skoðun prófessorsins sé rétt að það kunni að koma til þess þegar þessi Norðurlönd öll eru komin inn í Evrópusambandið, þá komi í ljós að þau hafi ekki sameiginlegra hagsmuna að gæta á þessum mikilvægu sviðum alþjóðasamvinnu sem þarna er stunduð innan Evrópusambandsins. Einmitt í ljósi þess kunni norræn samvinna á öðrum sviðum að verða mikilvægari en ella til þess að samstarfið sé þó gott á milli þessara ríkja af því að ágreiningsefnin í þessum efnum séu svo mikil og muni koma í ljós þegar starfað er saman á þessum evrópska vettvangi.