Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 17:48:36 (5272)


[17:48]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er tímanna tákn og tákn um gífurlega mikla umbyltingu í alþjóðamálum að við skulum nú á hálfrar aldar afmæli langþráðrar lýðveldisstofnunar Íslands ræða um utanríkismál á þeim grunni að spyrja okkur sjálf: Hversu langt eigum við að ganga inn í samruna vestrænna ríkja? Og það er einnig eilítið skondið að í umræðum fyrir nokkrum vikum um hvort Íslendingar ættu að velja sér annan þjóðsöng á lýðveldisafmælinu, að sá söngur sem helst þótti koma til greina endar á hendingunum:
          Svo aldrei framar Íslands byggð
          sé öðrum þjóðum háð.
    Ísland hefur allt frá landnámi verið öðrum þjóðum háð að miklu leyti þótt vitund þjóðarinnar um slíkt hafi ekki alltaf verið mikil. En nú sem aldrei fyrr erum við háð samskiptum við aðrar þjóðir í heimi sem minnkandi fer og alþjóðleg samskipti eru hverri þjóð nauðsyn. Þegar Alþingi fyrir rúmu ári síðan samþykkti lög um Evrópska efnahagssvæðið, þá óraði sum okkar ekki fyrir því hversu fljótt samherjar okkar í EFTA mundu banka á dyr Evrópusambandsins og hversu mikilvægt væri að halda vakandi umræðu meðal þjóðarinnar um framtíðarmöguleika okkar og stefnu í því samhengi. Því miður hefur slík umræða verið af skornum skammti og það er því fagnaðarefni að hún sé vakin upp á ný og vonandi á þróttmikinn hátt, jafnt meðal stjórnmálamanna og ekki síst meðal almennings. Virk umræða meðal almennings hér á landi hefur því miður aldrei komist á það skrið sem æskilegt hefði verið miðað við ýmsar aðrar EFTA-þjóðir og við skulum vera minnug þess að Norðmenn hófu umræðuna fyrir meira en tveimur áratugum síðan þegar þeir gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu um sameiningu við Evrópubandalagið, að mig minnir 1972. Og það er þess vegna sem mig langar til að leggja fáein orð í belg hér í dag til þess að hamra á mikilvægi umræðunnar.
    Hugmyndir um samruna eða nána samvinnu þjóða í milli, m.a. á grundvelli landfræðilegrar legu, eru að ná yfirhöndinni í dag um allan heim. Við sjáum næst okkur Evrópusambandið, NAFTA ef við lítum í vesturátt og framtíðarsýn um slíkt fyrirkomulag má finna meðal fyrrverandi Sovétríkja, í Miðausturlöndum og í Suðaustur-Asíu. Það er því alger lífsnauðsyn að horfast í augu við raunveruleikann og þær breytingar sem við sjáum í kringum okkur og bera saman kosti og galla á öllum þeim möguleikum sem við höfum og það án tillits til þeirrar skoðunar sem við kunnum að hafa í dag. Við verðum að mæta til leiks með opnum huga.
    En við verðum einnig að gæta þess að við höfum sérstöðu, sérstöðu sem ýmsar aðrar smáþjóðir hafa ekki og verður að taka tillit til þegar við metum þá stefnu sem við að lokum ákveðum að taka. Við erum ekki bara lítil eyþjóð í stóru og harðbýlu landi. Við eigum okkar menningararf og tungu og við búum fyrirsjáanlega í næstu framtíð ekki eingöngu við afar einhæft atvinnulíf heldur byggir það á mjög viðkvæmum grunni sem fiskstofnarnir vissulega eru. Það er okkur því nauðsyn að halda sjálf utan um verndun okkar afkomugrundvallar en fela slíkt ekki í hendur fjölþjóðlegra samtaka sem aldrei munu skynja til fulls mikilvægi þeirrar verndunar.
    Að mínu mati var EES-samningurinn kjörinn vettvangur fyrir samstarf við þær þjóðir sem standa innan Evrópusambandsins. Samningurinn veitir okkur aðgang að mörkuðum þessara þjóða og fjórfrelsið sem í honum felst er nægjanlegt til að hafa þau samskipti sem við þurfum og óskum eftir. Þrátt fyrir að ESB verði fyrirsjáanlega stærsti markaðurinn fyrir útflutningsvörur okkar í framtíðinni, þá verðum við að hafa í huga að við höfum einnig afar góð viðskipti við Bandaríkin og teygjum okkur æ lengra í viðskiptum við Suðaustur-Asíu. EES-samningurinn veitir okkur mun meira frelsi til viðskipta og annarra samskipta við þessi ríki og þau viðskiptabandalög sem þau tilheyra, svo sem NAFTA og heldur okkur utan hugsanlegra viðskiptaerja ESB við slík bandalög í framtíðinni. Þannig þjónar EES-samningurinn okkar hagsmunum eins og best verður á kosið.
    Nú þegar svo bregður við að fjórar EFTA-þjóðir virðast ætla að velja þann kost að ganga í Evrópusambandið, þá er okkur alger nauðsyn að skoða stöðu okkar í því samhengi og meta hana. Það er ljóst að Evrópusambandið hefur ekki þróast á þann hátt sem gert var ráð fyrir í Maastricht-samkomulaginu, heldur hefur verið farið hægar í sakirnar, sem ég tel vera viturlegra, og mun meiri sveigjanleiki er nú fyrir hendi en áður, sem m.a. sést í þeirri sérstöðu sem einangraðar byggðir í Norður-Skandinavíu fá innan ESB.
    Hins vegar eru þeir samningar sem Norðurlöndin og þá sérstaklega Noregur hafa náð engan veginn fullnægjandi fyrir Íslendinga. Samkvæmt þeim fregnum sem fengist hafa um sjávarútvegssamninginn við Norðmenn, þá eru í honum ákvæði sem við gætum aldrei fellt okkur við. Hvað sem öllum túlkunum líður, þá eru Norðmenn að gangast undir sjávarútvegsstefnu ESB þó á borði heiti það að sú stefna verði í samræmi við núv. stefnu Norðmanna. Það er einnig ljóst að verið er að gefa eftir kvóta til Spánar, Portúgals og Írlands og enn fremur ekki síst hlýtur það að hafa gífurleg áhrif á norskan sjávarútveg að erlendir ríkisborgarar geti átt fiskiskip í Noregi innan þriggja ára. Hver er kominn til með að segja að þau skip landi öllum eða meiri hluta afla síns í Noregi? Og síðast en ekki síst má spyrja út frá norskum hagsmunum: Hver

verður niðurstaða endurskoðunar á sjávarútvegsstefnu ESB eftir 9 ár? Allt þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni innan norsks sjávarútvegs og meðal Norðmanna almennt. Þó er sjávarútvegur ekki burðarás í heildarafkomu norsku þjóðarinnar eins og hjá íslensku þjóðinni, þótt hann kunni að gegna því hlutverki svæðisbundið. Ég hlýt því að fagna og styðja þann ásetning ríkisstjórnarinnar að leita hófanna á möguleikum á tvíhliða samningi við ESB á grundvelli EES-samningsins í stað þess að stefna á samrunaferli við ESB.
    Þrátt fyrir að við stöndum utan ESB getum við átt möguleika á að hafa óbein áhrif á pólitíska umræðu á þjóðþingum ríkjasambandsins og vil ég í því sambandi sérstaklega benda á mikilvægi þátttöku Íslands í Evrópuráðinu þar sem fram fer umræða og ályktað er um flesta þætti hins pólitíska litrófs. Virk þátttaka fulltrúa Íslands á þessum vettvangi hefur sýnt að þar getum við beitt áhrifum okkar. Ég tel ekki að við missum af lest tækifæranna við það að standa utan ESB svo framarlega sem við höldum þeim samningum sem náðust með EES. En ég vil ítreka nauðsyn þess að við skoðum alla möguleika í viðskiptum og samstarfi við þessar þjóðir Evrópu, svo og aðrar viðskiptaheildir, ekki aðeins á næstunni heldur, þar sem breytingar eru örar og forsendur að sjálfsögðu breytast, að við höldum vöku okkar stöðugt og um ókomna framtíð.