Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:14:17 (5275)


[18:14]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég get sagt eins og hv. 3. þm. Reykv., þessi ummæli sem voru höfð eftir 7. þm. Reykn., Steingrími Hermannssyni, stungu mig dálítið. Mér fannst þetta ónákvæmt orðalag. Ég hefði orðað þetta svolítið öðruvísi. Ég hefði sagt að í viðskiptahlið samningsins um Evrópskt efnahagssvæði væru vissulega hlutir sem eru okkur til hagsbóta. Ekki eins mikilla hagsbóta og hv. 3. þm. Reykv. eða hæstv. utanrrh. sögðu okkur í fyrra en þar eru hins vegar atriði sem eru okkur til þæginda.
    Hitt er svo annað mál að í samningnum eru yfirgnæfandi gallar og að því leyti var illa staðið að þessari samningagerð og samningurinn ekki nógu góður. Ef ég ætti að ganga til atkvæða um þennan samning núna þá mundi ég haga atkvæði mínu á sama hátt og ég gerði í fyrra.
    Í síðasta lagi var fyrirheit frá hendi ríkisstjórnarinnar um að verja auðlindir okkar við samningagerðina. Það átti að gera með girðingarfrumvörpum. Við höfum séð eitt af þessum girðingarfrumvörpum, þ.e. frv. til jarðalaga sem er ónýt girðing og skiptir engu máli, þar er allt galopið eða þá að gera jarðirnar verðlausar. Það vantar boðað frv. um auðlindir í jörðu. Við höfum séð að því uppköst, eitt eða tvö, en ég spyr hvenær von er á þessari lagasetningu frá ríkisstjórninni því eins og stendur er þetta allt saman galopið.