Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:16:33 (5276)


[18:16]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir hreinskilni hans í svörum. Það liggur fyrir að Framsfl. er orðinn þríklofinn í þessu máli. Hann klofnaði í tvennt á þinginu í fyrra en nú hefur komið í ljós að í andstöðuhópnum er einnig orðinn klofningur þannig að hv. formaður flokksins, Steingrímur Hermannsson, talar um þetta sem viðskiptasamning sem okkur dugar fullkomlega en hv. þingflokksformaður, Páll Pétursson, telur að formaður flokksins fari með fleipur og sé allt of mildur í afstöðu sinni til þessa ágæta samnings. Það er því erfitt fyrir okkur hv. þm. að átta okkur nákvæmlega á því hvernig ástandið er í þessum málum innan Framsfl. og ástæða til að fagna því enn að við komum okkur þá saman um ályktun 5. maí 1993 um framtíðarstefnuna í þessu máli og eigum það ekki undir framsóknarmönnum að móta hana.