Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:35:32 (5280)


[18:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þegar ég talaði um hin góða grunn þá átti ég náttúrlega einkum og sér í lagi við hina gleðilegu tímamótasamþykkt Alþingis frá sl. vori, sem ég veit að hv. þm. átti góðan þátt í að koma á. Ég segi það alveg hiklaust að ég tel það mikla gæfu fyrir okkur að hafa þó náð að sameinast um þannig leiðarljós upp á framhaldið. Það hvort við hefðum á einhverju stigi málsins í ferli könnunarviðræðna um EES ákveðið að velja frekar þann kost að fara út í gerð tvíhliða viðskiptasamnings. Það held ég að hefði alveg eins getað skilað okkur í sambærilega stöðu. Við værum þá e.t.v. búnir að því sem við eigum núna eftir að gera. Við hefðum e.t.v. þá strax sett kraftana í að ganga frá þessum samskiptum í formi tvíhliða samnings, varanlegs tvíhliða samnings, sem væri núna fyrir hendi og hefðum sloppið við þessa lykkju á leið okkar að fara inn í hið Evrópska efnahagssvæði sem líður svo undir lok innan skamms að öllum líkindum.
    Þannig að þó að það sé í raun og veru þannig, hv. þm. Björn Bjarnason, að yfirleitt sé ófrjótt að ræða um stjórnmál í þáskildagatíð, þ.e. ef, ef, ef, þá getum við auðvitað leikið okkur að því og rætt um hlut hvers og eins í því. Ég minni á að það var stefna Sjálfstfl. þegar hann var í stjórnarandstöðu að það væri betra að fara strax í tvíhliða viðræður. --- Eða er það ekki rétt munað, hv. þm.? Flutti ekki meira að segja Sjálfstfl. tillögu um það? ( Gripið fram í.: Jú, jú, jú.) Við skulum því bara tala varlega. Enda var það á fundi vestur á Flateyri á dögunum að við vorum að rifja þetta upp, ég og bjargvætturinn, og komumst að því að merkileg tík væri nú pólitíkin því Sjálfstfl. hefði viljað tvíhliða samning þegar hann var í stjórnarandstöðu, berðist núna fyrir EES, Alþb. hefði tekið þátt í því sem aðili að ríkisstjórn að standa að könnunarviðræðum um EES, en vildi núna tvíhliðasamning. Svona er þetta nú skemmtilegt, hv. þm., þegar farið er yfir þessa hlið mála. En út af fyrir sig er ég áfram tilbúinn að ræða um pólitík við hv. þm. Björn Bjarnason í þáskildagatíð.