Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:37:21 (5281)


[18:37]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Þessar umræður eru ekki í neinni þáskildagatíð. Þær eru um stöðuna eins og hún er nú og þá staðreynd að hv. þm. vildi ekki að sú staða væri uppi og greiddi atkvæði gegn því á síðasta þingi að við gerðumst aðilar að þessu Evrópska efnahagssvæði. Ég minni hv. þm. einnig á það og bendi honum á að lesa ályktun Alþingis frá 5. maí 1993 og greinargerðina sem fylgdi þeirri ályktun þar sem stendur annars vegar í ályktuninni sjálfri að hún sé gerð í framhaldi af gerð EES-samningsins og síðan er í greinargerðinni minnt á að þetta skuli gert á grundvelli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þannig að það er algjör forsenda fyrir þeirri ályktun að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og það er það sem veitir okkur þann styrk í þeirri stöðu sem nú hefur skapast. En hv. þm. var á móti því að við gengjum til þessa samstarfs, eins og menn muna sem fylgdust með umræðum á þingi í fyrra og þeirri atkvæðagreiðslu sem fór síðan fram um aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu.