Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:16:11 (5287)


[19:16]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef þetta eru rökin fyrir því að við eigum að fara að skoða aftur afstöðu okkar til aðildarumsóknar að Evrópubandalaginu, það sem hæstv. utanrrh. hafði eftir Gro Harlem Brundtland, þá held ég að það væri mjög forvitnilegt að fylgjast með umræðum á næstu dögum og vikum í Noregi þar sem mér sýnist að hæstv. ráðherra telji sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins harla góða. Utanrrh. virðist telja ástæðu til þess að fara að skoða málin eitthvað nánar núna, á grundvelli þess sem haft var eftir hæstv. forsætisráðherra Noregs, að í rauninni væri sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins býsna góð og færi batnandi hér um bil með degi hverjum. Annað var ekki að heyra. Ef þetta er það sem við eigum að byggja á þá er það auðvitað ekki mikið.
    Aðeins varðandi það að hér hafi einhverjir verið að lofa og prísa EES-samninginn sem áður voru á móti honum þá vil ég nú leiðrétta það, allavega fyrir mína hönd. Ég vil ekki að það sé ruglað saman tvíhliða viðræðum eða tvíhliða samningi sem hugsanlega gæti sprottið upp úr EES-samningnum ef þarna væru farnar allmargar þjóðir og stofnanaþátturinn út og síðan þessum EES-samningi sem var ekki gagnrýndur nema með býsna miklum rökum.