Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:22:28 (5290)


[19:22]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það hafi enginn maður hér sakað norsk stjórnvöld um að reyna að blekkja þegna sína í sjálfu sér um þessa niðurstöðu. ( Utanrrh.: Áróður, var sagt.) En hitt er alveg ljóst, hæstv. utanrrh., að það þarf ekki langa skoðun á þessum skjölum til þess að sjá að auðvitað eru ábyrgðaraðilar samningagerðarinnar, forsætisráðherra Noregs og sjávarútvegsráðherra Noregs, að reyna að gera sinn hlut sem besta í þessum textum, þessum fréttatilkynningum. Auðvitað. Skárra væri það nú.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið ástæða til þess fyrir Íslendinga að hafa ekki miklar áhyggjur í sjálfu sér ef Norðmenn hefðu náð einhverri slíkri samningsniðurstöðu sem utanrrh. hefði þá í sínum anda kallað allt fyrir ekkert, Norðmenn hefðu fengið allt fram, allt fyrir ekki neitt eins og hann var nú frægur að semja hérna einu sinn fyrr á öldinni. ( Utanrrh.: Þetta er fleipur.) Fékk allt fyrir ekkert að sögn. ( Utanrrh.: Þetta er fleipur.) En það er ekki svo. ( Utanrrh.: . . .  dró þetta allt til baka. Af hverju þora þeir nú . . .  ) Nú óróast hæstv. utanrrh. mjög. ( Utanrrh.: Mér leiðist að hv. þm. skuli vera að . . .  ) Ég skal ekki orðlengja um það. Sem sagt, ef niðurstaðan hefði samt sem áður orðið sú að Norðmenn hefðu fengið allar sínar kröfur fram, t.d. fullan og tollfrjálsan aðgang fyrir allar fiskafurðir strax en haldið að fullu og öllu samt sem áður forræði sínu fyrir auðlindunum og forvöltun þeirra og ekki þurft að láta einn einasta fisk af hendi o.s.frv. sem var þeirra samningskrafa --- en það er aldeilis ekki eins og ég sýndi hér fram á í ræðu minni. Þvert á móti urðu Norðmenn að gefa eftir báðar meginkröfur sínar um fullt forræði norðan við 62 breiddargráðu og þeir urðu að láta meiri fisk þannig að ég held að það þurfi ekki langa rannsókn á þessari samningsniðurstöðu, hæstv. utanrrh., né viðamikinn lestur í þessum pappírum til að sjá það að niðurstaðan varð ekki sú að Norðmenn fengju þarna allt á silfurfati nema síður sé og þess vegna eru forsendurnar óbreyttar. Það er sameiginleg niðurstaða allra í þessari umræðu nema þá hæstv. utanrrh.