Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:24:41 (5291)


[19:24]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er dapurlegur endir á annars ágætum umræðum að þurfa að vera að rífast við hv. þm. um staðreyndir. Hann leyfir sér það meira að segja enn að fara með gamla útslitna klisju sem margsinnis er búið að bera til baka um að sá sem hér stendur hafi einhvern tíma kynnt niðurstöður EES-samninganna á þann veg að við hefðum fengið allt fyrir ekkert. Hv. þm. veit nákvæmlega hvernig þetta er til komið, þetta eru ummæli höfð eftir Frans Andriessen, en þeir eru farnir að trúa lyginni úr sjálfum sér bara af því að hún er endurtekin nógu oft. Og sama er að segja um þessa frásögn hv. þm. af samningsniðurstöðum Norðmanna. Ég veit ekki hvaða tilgangi það þjónar að fara með svona fleipur. Hv. þm. hampaði hér skjölum, sagðist hafa fengið greinargerðir frá norska sjávarútvegsráðuneytinu. Ég hef farið yfir þær, ég hef farið yfir allt sem Norðmenn hafa birt um þetta og það sem hv. þm. segir um samningsniðurstöðuna er rangt. Hvaða tilgangi það þjónar veit ég ekki en staðreyndirnar eru allt aðrar heldur en hv. þm. hefur látið hér í veðri vaka.