Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:44:47 (5295)


[19:44]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Við erum sammála um meginkjarna málsins að því er varðar stefnu Íslands. Það hefur komið fram. Varðandi hins vegar forsendurnar er verið að vísa til þess að vegna samninga sem Norðmenn hafa gert við Evrópusambandið séu menn að skoða í því ljósi hvort forsendur varðandi túlkun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafi breyst. Ég skil þetta svo. Og eins og hæstv. utanrrh. hefur lagt upp sitt mál þá hefur hann tekið efnisþættina í hugsanlegum deilum okkar við Evrópusambandið ef við færum í efnislegar viðræður við það. Hann segir: Með hliðsjón af þessum samningi sem gerður hefur verið milli Noregs og Evrópusambandsins kunna forsendur við mat á sjávarútvegsþætti hugsanlegra viðræðna okkar við Evrópusambandið að hafa breyst. En ég hef ekki heyrt að það hafi komið fram í umræðunum að forsendur sem liggja til grundvallar stefnu Íslands og liggja fyrir í ályktun Alþingis hafi breyst. Enda erum við hv. þm. sammála um það, og ég þakka og honum fyrir stuðning hans við þá skilgreiningu sem ég reyndi að draga upp í minni ræðu og tel að hafi gengið upp og þetta sé í réttu samhengi við ákvarðanir sem teknar voru þegar í ársbyrjun 1992.