Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 19:47:29 (5297)


[19:47]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. varð tíðrætt um meiri hluta, meiri hluta Alþingis, hér hefði myndast nýr meiri hluti. Fjórir þingflokkar á móti einum. En eins og hv. formaður utanrmn. sagði í sinni ræðu þá vildi hann nú ekki una þessari söguskoðun prófessorsins á þessum sögulegu atburðum sem hér hefðu gerst og leiðrétti þetta.
    Hvaða meiri hluta er hv. þm. annars alltaf að tala um? Stærsta utanríkisviðskiptamál okkar tíma var EES-samningurinn sem var borinn hér undir atkvæði hv. þm. Hver var í meiri hluta um þann samning? Hver var á móti þessum samningi? Það var jú hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og sá minni hluti hans þingflokks honum að baki. Sumir flokkar klofnuðu í þessu máli en meiri hluti myndaðist um EES-samninginn. Í framhaldi af því var Alþingi sammála og er sammála, það hefur enginn sagt annað, um það að freista þess í viðræðum við Evrópusambandið að tryggja að við höldum ávinningi EES-samningsins. Ályktun Alþingis er ekki um það að fara að spretta upp EES-samningnum, segja honum upp eða fara í nýjar samningaviðræður um inntak hans. Nei. Hún er um að tryggja íslensku þjóðinni þann mikla ávinning sem meiri hluti á Alþingi Íslendinga tryggði henni gegn minni hlutanum sem hv. þm. er hluti af.