Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:37:49 (5361)


[16:37]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Það var aðeins smáatriði varðandi þetta frv. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í efnislegar umræður um frv. við þessa umræðu, enda hefur ráðherra lýst því að þetta verði e.t.v. kannað nánar og mælt fyrir frv. aftur og þykir mér það ekki óeðlilegt miðað við hversu stórt og viðamikið þetta frv. er. En það var aðeins eitt atriði sem ég ætlaði að spyrja um.
    Það kemur fram í athugasemdum og kom reyndar fram í máli hæstv. ráðherra að þetta frv. sé aðallega flutt vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt tók ráðherra það fram varðandi eitt atriði, þ.e. ef félög yrðu gjaldþrota varðandi stjórn í sambærilegu félagi, væru einstakir stjórnarliðar með fyrirvara að því er það atriði varðar. Þetta kom mér á óvart vegna þess að ég hélt þegar verið var að tala um að aðlaga íslensk lög að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þeim rétti sem þar gilti þá hefðum við ákaflega lítið val og þess vegna væri mjög nauðsynlegt fyrir þingmenn að vita yfirleitt hvað það er nákvæmlega sem hægt er að breyta og hafa áhrif á og hvað ekki. Það er mjög erfitt fyrir þingnefndir og þingmenn almennt að fara ofan í alla þá lagabálka sem við hugsanlega þurfum að aðlaga okkur að og væri eðlilegra að gefnar væru upplýsingar um það jafnóðum, jafnvel í greinargerð með frv., e.t.v. stendur það hér, en ég hef því miður ekki haft tíma til þess að kynna mér það. Þess vegna spyr ég: Eru fleiri atriði með þessum hætti að hægt sé að gera á þeim breytingar?