Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:18:06 (5410)


[14:18]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér er um sértækar aðgerðir að ræða vegna mikils vanda á Vestfjörðum. Ég viðurkenni fúslega að það er nauðsynlegt að fara í sértækar aðgerðir vegna þess vanda sem er uppi á Vestfjörðum. En núv. ríkisstjórn hefur aldrei fram að þessu viðurkennt að það gæti komið til þess að það þurfi

að fara í sértækar aðgerðir, ekki aðeins á Vestfjörðum heldur jafnframt annars staðar á landinu, sem hlýtur jafnframt að koma til álita. Það er því nokkuð merkilegt að hæstv. fjmrh. notar tækifærið þegar hann mælir fyrir þessu máli að tala um að menn hafi látið milljarða fljóta út í sértækar aðgerðir áður. Er hugmyndin hjá ríkisstjórninni með þessu máli að vekja hér upp deilur enn einu sinni um fortíðina? Getur þessi hæstv. ríkisstjórn ekki viðurkennt að það getur að sjálfsögðu komið til þess, til að bjarga þjóðarhag, að það þurfi að fara í sértækar aðgerðir? Hæstv. fjmrh. talaði mjög fallega um fyrirtækið Granda hf., sem er ekki nema gott. Veit hæstv. fjmrh. að það var fyrsta fyrirtækið sem fékk fyrirgreiðslu samkvæmt þeim ráðstöfunum? Ef hæstv. fjmrh. meinar eitthvað með því að hann vilji koma þessu máli hér fram þá held ég að hann ætti að reyna að hætta að tala um fortíðina og fara að tala um framtíðina. Því ríkisstjórn sem hugsar bara um fortíðina mun ekki komast neitt áfram, enda hefur það komið í ljós með núv. ríkisstjórn.