Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:25:30 (5414)


[14:25]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var afar merkileg framsöguræða hjá varaformanni Sjálfstfl., einkum í ljósi málatilbúnaðar þess flokks fyrir síðustu alþingiskosningar. En mig langar að bera tvær spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Sú fyrri er: Hvernig á aukinn þorskafli að koma mönnum til góða þar sem þeir eru búnir að selja skipin í aðra landsfjórðunga? Hvernig á það að koma Bílddælingum og Tálknfirðingum til góða ef þorskafli verður aukinn þegar skipin hafa verið seld í burtu? Hæstv. ráðherra verður að gefa skýringu á því hvernig aukningin á að koma þar sem hann ætlar henni að lenda.
    Í öðru lagi vil ég minna ráðherrann á það að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því seint á sl. ári að hér yrðu viðhafðar kosningar um vilja fólks til þess að sameina sveitarfélög, lýðræðislegar kosningar. Niðurstöður úr þeim kosningum liggja fyrir. Samt kemur ríkisstjórnin með skilyrði sem segir við forráðamenn sveitarfélaga: Ef þið ætlið að vera gjaldgengir til að fá peninga frá ríkisstjórninni þá verðið þið að ganga gegn vilja fólksins. Hvers konar lýðræði er þetta, hæstv. fjmrh.? Er verið að bera fé á menn til þess að ganga gegn vilja fólksins í lýðræðislegum kosningum? Hvers konar flokkur er þessi Sjálfstfl. orðinn? spyr ég nú.