Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:29:14 (5425)


[15:29]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar þorskafla.
    Hér hafa talað þrír hv. þm. Vestfjarða. Ég vil hvetja þá til þess að vinna sameiginlega að lausn mála varðandi Vestfirðina eins og ég held að hv. þm. annarra kjördæma verða að gera í kjölfar þessara aðgerða og taka höndum saman um aðgerðir þær sem mest þarf á að halda í kjördæmunum.
    Ég vil taka undir að það þarf að uppfylla mjög þröng skilyrði til að fá þá aðstoð sem verið er að ræða um. Ég vil benda á það sem sagt er á bls. 6 í frv. um vinnuferil vegna hagræðingar í sjávarútvegi á Vestfjörðum. Það þarf að mynda starfshóp fulltrúa ríkisstjórnar, banka, sjóða og annarra kröfuhafa og Byggðastofnunar sem með aðstoð rekstrarráðgjafa starfar að undirbúningi tillögugerðar með þeim fyrirtækjum sem stefna að sameiningu og óskað hafa aðstoðar. Það eru engar smákröfur sem verið er að setja

upp og ég er ekki búinn að sjá menn leysa þetta. Þess vegna segi ég að hv. þm. þurfa að standa saman um þá lausn sem hægt verður að finna út úr þessu frv. og þær breytingar sem kannski þarf að gera.
    Ég vil aðeins ræða um þetta mál út frá því hvernig atvinnusvæðin eru. Sú stefna hefur verið ríkjandi að stækka atvinnusvæði. Miðað verður við að unnt sé að fara til vinnu daglega á tiltekinn stað frá heimili. Samgöngur eru sá þáttur sem mestu ræður hversu stór atvinnusvæði geta verið samkvæmt framansögðu að teknu tilliti til færðar og vegagæða. Það má minna á það að víða erlendis þykir ekki tiltökumál að sækja vinnu um hálfs klukkustundar eða heillar klukkustundar veg, en hér á landi fara menn vart lengra, nema einhverjir örfáir þingmenn, en 20--30 mínútna veg til vinnu.
    Ég hef oft sagt hér að ég tel að ríkisstjórn Íslands verði að grípa til sértækra ráðstafana vegna skerðingar sem einhæfari byggðarlög hvað varðar atvinnu hafa orðið fyrir. Um þær ráðstafanir sem hér er gert ráð fyrir að verði gripið til vil ég upplýsa að ég hefði talið betra, ef menn hefðu treyst sér til á grundvelli aukinnar fiskigengdar, að grípa til ráðstafana sem nú skal farið um nokkrum orðum.
    Ég held að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að taka þá pólitísku ákvörðun að auka aflaheimildir um 20 þús. tonn og nýta 10 þús. tonn af þeim afla til sértækra ráðstafana til þeirra byggða sem veikastar eru og hafa orðið fyrir mestri skerðingu. Ég vil benda hv. þm. á að sú skerðing nær ekki bara til suðursvæðis Vestfjarða. Hún nær til Snæfellsness. Ég tel að að taka hefði átt ákvörðun um að veiða þessi 20 þús. tonn og það skilyrði átt að fylgja að sá afli yrði unninn allur í landi, ekki um borð í fyrstitogurum jafnvel þó að verið sé að mismuna mönnum. Ég tel að 10 þús. tonnin, sem ég hef ekki getið um hér áður, þ.e. hinn helmingurinn af 20 þús. tonnunum, hefðu átt að fara inn á þann kvótamarkað sem hefði hjálpað til við bráðabirgðalögin sem voru sett til lausnar verkfalls sjómanna.
    Ég tel líka að það þurfi að koma því fyrir að 75% úthlutaðs afla á skip verði að veiða á viðkomandi skip. Það verði að minnka frjálst framsal kvóta á milli skipa. Ég tel að grundvöllur fyrir því að byggðirnar eigi einhverja afkomumöguleika sé bundinn við viðkomandi skip a.m.k.
    Ég tel nauðsynlegt að leita eftir breytingum á kvótakerfinu. Hver einasta breyting sem gerð verður þýðir í raun nýtt kerfi. Það eru auðvitað tillögur sem vert er að skoða um hvernig ráðgjöf og forsendur fyrir aflaheimildum eru unnar og hvernig þær hafa áhrif á búsetu í landinu.
    Ég hef áhyggjur af því að af of mikilli sameiningu fyrirtækja geti orðið. Það er alveg augljóst að smáfyrirtæki verða að eiga tilverurétt. Fjölskyldufyrirtæki ásamt stórum fullvinnslustöðvum er það sem margir telja grundvöll atvinnustarfsemi í fiskveiðibyggðunum og ég vil taka undir það.
    Ég tel þetta frv., sem ég reikna með að samþykkja, vera upphaf ferlis sem verður að fara. Þó flestir telji sig vita í grófum dráttum hvað vanti á hinum ýmsu stöðum á landinu þarf nákvæmari tillögur. Þær þurfa að liggja fyrir. Sú skýrsla sem menn helst vitna til, Breyttar áherslur í byggðamálum, er auðvitað ágæt en hún tíundar ekki nákvæmlega þær aðgerðir sem þarf að grípa til. Hún gefur að sjálfsögðu vísbendingu um vilja, en það vantar mikið á að þar séu nákvæmlega útfærðar hugmyndir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Mitt sjónarmið er að flestar aðgerðir séu varnarbarátta og sóknarþunginn sé mjög takmarkaður því að samdráttur og hrun hefur komið svo kröftuglega fram að ekki hefur verið um sókn að ræða varðandi atvinnusköpun nema í litlum mæli. Við Íslendingar erum óvanir að vera í varnaraðgerðum og við erum í frumbernsku á því sviði. En auðvitað tel ég að við munum snúa vörn í sókn. Ég tel að vaxtaaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi verið annað skref í bættu starfsumhverfi fyrirtækjanna, lagfæring á sköttum hjá fyrirtækjunum var fyrsta skrefið. Núna ætti að vera möguleiki til að grípa til fyrstu sóknaraðgerða.
    Virðulegur forseti. Auðvitað munu þingmenn berjast fyrir aðgerðum í sínum kjördæmum. En mín skoðun er sú að rétt hafi verið að hefjast handa á Vestfjörðum. Sérstakar byggðir, eins og ég sagði áðan, aðlægar, eru í sömu sporum og einstök bæjarfélög og sum sveitarfélög eru í meiri vanda þó mikill sé á Vestfjörðum. Það hefur bara ekki verið gripið til ráðstafana þar og það þarf að gera.
    Ég hlýt að vera sannfærður um að þeir staðir, t.d. væntanlegt sameinað sveitarfélag á Snæfellsnesi, verði næst í röðinni og síðan koll af kolli. Mikil orsök þess vanda sem landsbyggðin býr við á rætur að rekja til kvótakerfis í sjávarútvegi og landbúnaði. Kvótakerfið í sjávarútvegi er farið úr böndum og þarf ekki að nefna annað en flutning á fiski, venjulega þorski, í vinnslu til byggða sem láta síðan skip sín fiska aðrar tegundir til þess að flytja þær óunnar á markað, alls tiltekið 60--70 þús. tonn á síðasta ári a.m.k. Ég tel að í þessum orðum komi fram meginvandi sjávarbyggðanna allt frá Akranesi til Húnaflóa og reyndar að meira og minna leyti um allt landið. Ég tel að kvótakerfið hafi stuðlað að flutningi fjármagns, fyrirtækja, atvinnutækja og fólks frá veikari byggðunum til þeirra sem betur hafa nýtt sér smugur sem kvótakerfi fiskveiðistjórnunar felur í sér.
    Virðulegur forseti. Ég tel að grundvöllur varanlegra aðgerða til jöfnunar sé að feta sig til baka markvissum skrefum í formi aukins kvóta til verst settu byggðanna, eins og ég lýsti í upphafi míns máls, og þannig verði störf endurheimt. Sú neyðaraðgerð sem hér er verið að grípa til er nauðvörn.
    Mín lokaorð skulu vera þau að gerbreytt kvótakerfi er grundvöllur endurreisnar byggðanna á Íslandi.