Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:59:49 (5428)


[15:59]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef verið talinn einn af þeim sem hafa lengst gengið í því að vilja lána til fiskeldis og halda fiskeldi áfram en ekki að hætta. Norðmenn hafa ekki grætt á fiskeldi þegar á heildina er litið og þeir hafa líka farið geyst eins og við. Þeir hafa tapað milljörðum á fiskeldi en halda samt áfram. Ég vil halda áfram fiskeldi en innan hóflegra marka. Það hefur verið skammaryrði núna hjá ýmsu liði að tala um loðdýrarækt en núna eru skinnin aftur að koma upp og nú heyri ég engan skammast út í loðdýrarækt, ekki svona síðustu tvo mánuðina. En ef markaðurinn fellur þá er alveg öruggt að þessi söngur byrjar aftur. En þannig er það með Íslendinga að ef illa gengur þá þarf alltaf að kenna einhverjum öðrum um, svo þegar eitthvað fer að rofa til þá vilja allir Lilju kveðið hafa. Þannig gengur þetta til. Það var þetta sem ég var að benda á. Og það sem ég var að benda á, frú Jóna Valgerður, hv. 6. þm. Vestf., var að það væri rangsnúið að heimta rannsókn og hálfgerðan rannsóknarrétt yfir því sem hér væri rætt á hverju einasta ári og hvert einasta lán tíundað og hver einasti styrkur. Og leggja svo til að einn endurskoðandinn, aðalendurskoðandi í Ríkisendurskoðun, tilnefni tvo menn til þess að endurskoða aftur það sem þeir áður hafa endurskoðað.