Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:03:34 (5436)


[17:03]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki svarað ýmsum spurningum ræðumanns en mun gera það síðar að sjálfsögðu. Það er fyrst og fremst eitt atriði sem ég vil leggja á áherslu hér og nú, vegna þess að fleiri hv. ræðumenn hafa nefnt það. Það er atvinnuleysi á Vestfjörðum. Ég tek það skýrt fram að þessar aðgerðir eiga ekki við vegna núverandi atvinnuleysis á Vestfjörðum. Það er ekki ástæðan fyrir þessum aðgerðum. Erlent verkafólk var á Vestfjörðum í stórum stíl. Það er brottflutt. Vestfirðingar hafa flust brott úr sínu kjördæmi í stórum stíl en við vitum að það eru 35--40% af fólkinu sem lifir á sjávarútvegi. Ef atvinnulífið hrynur á Vestfjörðum verður atvinnuleysi ekki 10%, það gæti orðið 40--50% ef ekki meira. Það er sú fyrirbyggjandi aðgerð sem við erum að tala hér um. Þetta er í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi held ég að það sé mikilvægt að það komi líka fram í umræðunni að það liggur könnun á bak við þessa aðgerð. Þetta mál hefur verið kannað af sérfræðingum frá því í nóvember. Og það eru til skýrslur um það á hverju þessar aðgerðir byggjast.
    Í þriðja lagi vegna sveitarfélaganna. Nefndin getur aflað sér upplýsinga um það að Patreksfjörður, Bíldudalur og Bolungarvík eru mjög skuldug sveitarfélög. Önnur sveitarfélög standa misjafnlega vel, sum nokkuð vel.
    Varðandi sjávarútveginn þá er staðan sú á Vestfjörðum að að meðaltali er afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna þar 2% verri heldur en landsmeðaltalið. Þær aðgerðir sem verið er að efna til duga ekki til að leysa allan vanda en þeim er ætlað að að brúa bil þar til þorskurinn gefur sig aftur.