Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:45:51 (5442)


[17:45]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Austurl. virðist ekki hafa fylgst með þegar hann heldur því fram hér að það hafi á skort almennar aðgerðir í þágu sjávarútvegsins í landinu öllu. Við höfum vissulega orðið fyrir miklum áföllum vegna þess að þorskaflinn hefur dregist jafnmikið saman og raun ber vitni og verðlag á erlendum mörkuðum hefur lækkað um meira en 25% frá 1991. Þetta er meiri háttar áfall fyrir sjávarútveginn. Samt er það svo að Þjóðhagsstofnun gefur út tölur um horfur um afkomu sjávarútvegsins á þessu ári sem benda til þess að hann verði ofan við núllið eða með 0,5% hagnaði, eftir að sjávarútvegurinn var ofan við núllið á sl. ári. Þetta er afleiðing af því að ríkisstjórnin hefur gripið til mjög gagngerðra almennra aðgerða með því að fella gengi krónunnar tvisvar, með því að leggja niður aðstöðugjaldið og fella það af sjávarútveginum, með því að grípa til mjög víðtækra skuldbreytinga og lengingar lánanna. Þetta er afleiðing af því að stjórnendur í sjávarútvegi hafa gripið það tækifæri sem þannig hefur skapast með hagstæðustu samkeppnisskilyrðum sem greininni hafa verið búin í þrjá áratugi til þess að hagræða enn frekar og til þess að takast á við ný verkefni, nýjar vinnslugreinar sem hafa skilað meiri verðmætum. Þetta er staðreyndin í málinu. Þrátt fyrir þau miklu áföll sem við höfum orðið fyrir vegna minni þorskveiða og vegna mikils verðfalls á erlendum mörkuðum, þá hefur tekist með almennum aðgerðum að halda þann veg á málum að greinin hefur getað beitt þeim ráðstöfunum og brugðist á þann veg við að hún verður að meðaltali fyrir ofan núllið á þessu ári. Auðvitað horfir þetta misjafnlega við einstökum svæðum eins og til að mynda á Vestfjörðum sem menn eru að fjalla um og einstökum fyrirtækjum. En það er mjög mikilsverður meiri háttar árangur sem hefur náðst við þessar erfiðu aðstæður og furðulegt að hv. 2. þm. Austurl. skuli ekki hafa tekið eftir þessum augljósu staðreyndum.