Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:52:02 (5460)


[18:52]
     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. um ráðstafanir til að stækka atvinnusvæði og þjónustusvæði á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla. Vissulega er gott í sjálfu sér að þetta frv. skuli fram komið því að vandinn er mikill. En þennan vanda mátti svo sem sjá fyrir þegar á sl. vori.
    Ég get ekki látið hjá líða að segja það að ég varaði sérstaklega við því, þegar farið var í það að ákveða þorskaflann jafnneðarlega og raun ber vitni, hvaða ástand mundi koma upp á Vestfjörðum og ég hygg að sams konar ástand geti vissulega verið að koma upp í öðrum landshlutum, þó að það verði kannski eitthvað síðar.
    Ég fagna því hins vegar að flestir ræðumenn sem komið hafa í pontu í dag hafa lýst því yfir að þeir mundu styðja þessar aðgerðir. Ég tel að það sé mjög gott fyrir svæði eins og Vestfirði, sem stendur frammi fyrir þeim miklu vandamálum sem þar eru, að eiga þann stuðning vísan hjá þingmönnum og fagna því auðvitað að ríkisstjórnin skuli hafa beitt sér fyrir því að þessir fjármunir komu til svæðisins. En ég verð að lýsa þeirri skoðun minni einnig að ég tel að 2. gr. frv. sé ekki ásættanleg eins og hún er og þurfi að vera mun opnari og tek undir það sem hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, sagði hér í dag að það þarf að laga texta hennar verulega.
    Það hafa margir þingmenn í dag vikið að því að við værum að fást hér við fortíðarvanda. Það er alveg rétt að mínu viti, við erum að fást við hann. En sá fortíðarvandi tel ég að liggi að stærstum hluta í okkar fiskveiðistjórnarlöggjöf. Það er einfaldlega þannig í fiskveiðistjórnarlöggjöfinni að það er ekki gert ráð fyrir því að taka á vanda sem hlýst af samdrætti í atvinnu þegar um er að ræða annars vegar almennar botnfiskheimildir og hins vegar rækju. Í 9. gr. laga um stjórn fiskveiða er beinlínis tekið á því að það sé ekki hægt að taka á tekjubresti þó að hann sé meira 20% ef það hlýst af samdrætti í almennum botnfiskveiðum eða úthafsrækju, en hins vegar er hægt að taka á vandamálum sem snúa að veiðum annarra tegunda.
    Nú er það þannig á Vestfjörðum, eins og margoft hefur komið fram í dag, að þorskurinn skiptir höfuðmáli. Hann er undirstaða þess að sjávarútvegur á Vestfjörðum sé rekinn af einhverjum krafti. Og það

er ekki einu sinni hægt samkvæmt 10. gr. fiskveiðilaganna að breyta öðrum tegundum í þorsk að 5%. Þannig að öll sund eru lokuð í þessum málum.
    Það er líka sagt í 19. og 20. gr. fiskveiðilaganna þar sem vikið að sektarákvæðum og refsingum og öðru slíku sem leiðir af því að menn fara fram úr þorskafla. Nú ætla ég að ítreka það áður en ég held lengra í máli mínu að sá vandi sem fram undan er á næstu fjórum til fimm mánuðum verður ekki bundinn við Vestfirði eina, langt frá því. Það kann að vera að hann komi fyrst upp á Vestfjörðum en hann mun koma í lok apríl um allt land. Og hann felst í því að það verður ekki hægt að stunda hér fiskveiðar að neinu viti vegna þess að þorskveiðiheimildirnar sem eftir eru í landinu duga ekki til. Menn stunda ekki fiskveiðar hér við Ísland og reyna að veiða upp ufsa, ýsu, kola og aðrar fisktegundir án þess að fá einhvern þorsk. Ég hefði viljað spyrja Ingibjörgu Pálmadóttur áður en hún gengur úr salnum . . .  
    ( Forseti (StB) : Háttvirta.)
    --- fyrirgefðu, háttvirta --- en hún sagði hér áðan að þorskvóti væri að verða búinn í sveitarfélögum á Snæfellsnesi. Hvernig hefur hún hugsað sér sem mikill stuðningsmaður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis að bregðast við? Ég tel að þetta sé sameiginlegur vandi okkar allra sem hafa á einhverjum tímapunkti komið að því að vinna í þessum fiskveiðistjórnunarmálum og þetta verður sameiginlegur vandi allra þingmanna eftir mjög skamman tíma.
    Fiskimönnum okkar verður ætlað að reyna að stunda hér fiskveiðar og halda uppi atvinnu og þeir muni hafa tvo kosti, fiskimennirnir og útgerðin. Þeir munu hafa þá kosti, annars vegar að hætta veiðum og leggja skipunum eða hinn kostinn að reyna að halda áfram veiðum á þeim fisktegundum sem eftir eru. Og þá kemur upp sú staða að menn standa frammi fyrir því, hvað á að gera við þann þorskafla sem kemur í veiðarfærin? Ingibjörg vék réttilega að því hér áðan, hvernig mun ástandið líta út á Snæfellsnesi þegar þorskkvótinn er búinn og hvernig mun hann líta út á Vestfjörðum og hvernig mun hann síðan líta út á Norðausturlandi og Austfjörðum. Þegar 8--9 mánuðir eru liðnir af þessu fiskveiðiári þá mun staðreyndin verða sú, hygg ég, að það verða örfá fyrirtæki hér í landinu sem eiga eftir þorskveiðiheimildir og geta haldið úti veiðum og verið með eitthvert hlutfall af þorski í sínum afla. Hin fyrirtækin og hinar útgerðirnar og sjómennirnir sem hjá þeim vinna verða öll í stökustu vandræðum. Og ég held að það sé ekki hægt að fara í gegnum þessa umræðu hér í dag, þar sem kvótamálin og fiskveiðimálin hafa blandast inn í, án þess að víkja að þessu vandamáli sem fram undan er. Ef við hugleiðum það ekki hér, þá erum við ekki vandanum vaxin. Það þýðir ekkert að fela þetta mál lengur. Við hljótum að standa frammi fyrir því að íslenskir fiskimenn og íslenskir útgerðarmenn eiga þann kost einan, annaðhvort að koma með fiskinn að landi og lenda í sektum og upptökum og sviptingum veiðileyfa eða að reyna að koma honum fram hjá með einhverjum hætti. Það þýðir ekkert að tala neina tæpitungu um þetta mál. Ef Alþingi ætlar ekki að ræða um þetta mál eins og það liggur fyrir, þá erum við ekki vandanum vaxin. Það verður bara að segja hlutina eins og þeir eru. Ég tel að það sé skylda okkar að taka á því með hvaða hætti við ætlumst til þess að þessi atvinnustarfsemi verði stunduð hér á landi eftir að 8--9 mánuðir eru liðnir af þessu fiskveiðiári. Hvernig eiga fiskveiðar að fara fram við Ísland síðustu þrjá mánuði fiskveiðiársins? Og það er ákaflega slæmt að sjútvrh. skuli ekki vera hér því að þetta mál snýr auðvitað mikið að honum.
    Við vorum að fá þær fréttir í dag frá Hafrannsóknastofnun að það væru engar líkur fyrir því að þeir mundu leggja til auknar aflaheimildir. Menn höfðu kannski bundið vonir við að það kæmu tillögur frá Hafrannsóknastofnun um einhverja aukningu þannig að hægt væri að sjá fram á með einhverjum hugsanlegum leiðum að þetta dæmi gengi upp það sem eftir er af fiskveiðiárinu. En það er ekki von í því þrátt fyrir að flestum fiskimönnum beri saman um það að ástandið í hafinu við Ísland sé gott og það sé frekar meira af fiski heldur en menn hafi átt von á. Samt held ég að það sé líka rétt að taka það fram að ég held að það sé enginn fiskimaður við Ísland sem heldur því fram að hér sé allt fullt af þorski. Ég held að það sé ekki svoleiðis. En þó að við hefðum kannski aukið þorskaflann um 15--30 þúsund tonn, þá held ég að framtíð þorskstofnsins hefði ekki verið hætt, en það hefði kannski verið hægt að halda hér uppi eðlilegu atvinnulífi án þess að menn væru beint knúðir til þess að horfa fram hjá lögum og jafnvel brjóta þau.
    Það er ömurlegt hlutskipti sem á að verða hlutskipti íslenskra fiskimanna næstu mánuði ef þeir eiga að þurfa að standa frammi fyrir því að velta alltaf fyrir sér hvaða refsingar þeir munu nú fá. Fá þeir refsingarnar fyrir að koma með aflann að landi eða fá þeir refsingarnar fyrir að losa sig við hann úti á sjó? Hvernig ætla menn að umgangast þessi mið? Væri nú ekki skömminni skárra í því atvinnuleysi sem við búum við að allur afli kæmi hér á land og það væri reynt að gera eitthvað til þess að slíkt mætti verða?
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín lengri, en ég ítreka það að nokkrir þingmenn hafa hér vikið að því að við byggjum við fortíðarvanda. Sá fortíðarvandi var tekinn í arf í núverandi fiskveiðistjórnarlögum og því er nú verr að það er kannski ekkert mikil áhugi fyrir því í stjórnarflokkunum að breyta þessu fiskveiðistjórnunarkerfi. En ég hefði talið nauðsynlegt að reyna að taka á því og þá er ég ekki þar með að segja að það sé hægt að gefa frjálsar veiðar í þorsk, það er ekki hægt við núverandi aðstæður, né karfann eða grálúðu. Það má hins vegar gefa frelsi til þess að veiða ýmsar aðrar fisktegundir sem ekki hefur náðst að veiða upp í aflamörk á undanförnum árum og þar er kerfið eingöngu kerfisins vegna, ekki vegna þess að við þurfum á því að halda. Og ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt að velta því fyrir sér sem Ingibjörg Pálmadóttir vék hér að, hvernig eiga menn að standa að málum þegar þorskvótinn er búinn? Það verður mjög erfitt og það verður illþolanlegt fyrir sjómenn að eiga að stunda fiskveiðar með því lagi sem

fram undan er.