Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:09:14 (5466)


[19:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það hjálpar til að segja frá því að það liggja ekki fyrir í alveg endanlegu formi þær tillögur sem leggja á til grundvallar við þann styrk sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga á að veita þeim sveitarfélögum sem ganga til sameiningar. En það hefur verið samið við stjórn sveitarfélagasambandsins eins og kemur fram í fskj. með þskj. Þeir viðmiðunarpunktar sem notaðir voru við árslok 1992 voru að sveitarfélög gætu fengið styrk úr Jöfnunarsjóði, sem greiddur yrði út á fjórum árum, sem næmi um það bil helmingnum af þeim mun sem er á skuldum sveitarfélaganna og árlegum tekjum þeirra. Þetta voru þær viðmiðunarreglur sem menn höfðu milli handa en að sjálfsögðu á eftir að vinna úr þessum reglum því það eru aðeins takmarkaðir fjármunir sem ganga til verkefnisins samkvæmt þar til gerðum samningi og hann kemur fram á fskj. Þá geta menn reiknað út hvert hámarkið verður til þessara nota á næstu fjórum árum.
    Ég hygg að hæstv. félmrh. geti ekki á þessari stundu svarað fsp. betur og álít að til nákvæmari upplýsinga og til þess að geta kallað fulltrúa sveitarfélaganna fyrir þá þurfi hv. nefnd að ganga eftir því. En það er ekki ráðgert að það þurfi lagabreytingar né heldur fjármuni á yfirstandandi ári heldur muni fjármunir frá ríkinu til móts við þá fjármuni sem Jöfnunarsjóðurinn hefur úr að spila koma á fjárlögum næsta árs ef Alþingi samþykkir slíkt.