Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:31:39 (5476)


[19:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frv. sem hér er komið fram. Ég tel að það sýni viðleitni ríkisstjórnarinnar að koma til móts við garðyrkjubændur og vonandi fylgir fleira í kjölfarið því að örugglega mun þetta ekki duga til að bjarga þeirri atvinnugrein.
    Ég kem ekki hvað síst upp í ræðustólinn til þess að spyrja hvað það þýði sem stendur í 2. gr. frv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Fjmrh. er enn fremur heimilt að endurgreiða eða fella niður vörugjald af innlendu hráefni,`` --- það má sem sagt fella niður vörugjöldin af innlendu hráefni. Síðan kemur: ,,efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara og garðyrkjuafurða.``
    Ég skil þetta svo líka af skýringunum sem með fylgja þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Gert er ráð fyrir að heimildin verði notuð til að endurgreiða eða fella niður tolla og eftir atvikum vörugjöld af græðlingum sem fluttir eru inn til framhaldsræktunar`` o.s.frv. að þarna séu menn í raun og veru að tala um að fella niður vörugjöld af öllum aðföngum. En hvers vegna er þá tekið þannig til orða að fella niður vörugjöld af innlendu hráefni? Er ekki meiningin að fella niður vörugjöld eða tolla af öllu erlendu hráefni sem innflutt er í þessu skyni eða hvað stendur á bak við þetta orðalag?
    Síðan langaði mig vegna orða hæstv. ráðherra að fagna því alveg sérstaklega að ríkisstjórnin hefur tekið, eftir því sem ég skil, lokaákvarðanir um það að koma hér á undirboðs- og jöfnunartollum. Mér er það mikil ánægja að geta hælt ríkisstjórninni fyrir það að hafa loks tekið á þessu máli ef ég hef skilið rétt það sem hæstv. ráðherra var að segja. Ég flutti frv. fyrir hálfu öðru ári síðan um undirboðs- og jöfnunartolla sem var vísað til ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi og við sem höfum verið að reyna að fylgja því eftir að eitthvað væri gert, t.d. í málefnum skipasmíðaiðnaðarins, höfum beðið lengi eftir því að ríkisstjórnin kæmi frá sér ákvörðunum um undirboðs- og jöfnunartolla. Ég vona að ég sé ekki að fagna of snemma en ætla að segja að ef það er rétt skilið að hæstv. ríkisstjórn sé hér með að taka ákvarðanir um að koma á undirboðs- og jöfnunartollum í skipasmíðum, þá á hún hrós skilið fyrir að hafa þó loksins tekið þessa ákvörðun. Enginn ríkisstjórn sem á undan hefur setið hefur tekið hana fyrr. Ég ætla ekki að lengja þetta að öðru leyti en ég vildi bara koma þessu á framfæri við fyrsta tækifæri eftir að hafa heyrt þessi gleðilegu tíðindi.