Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:45:30 (5583)

[14:45]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Núgildandi lög um lax- og silungsveiði hafa gilt óbreytt frá 1970 ef undan er talin breytingin sem fólst í lögum nr. 38/1992 þar sem ákvæðum XIV. kafla laganna um Fiskræktarsjóð, styrkveitingu til fiskræktar, var lítillega breytt.
    Á undanförnum árum hefur alloft borið á góma nauðsyn þess að endurskoða gildandi lagaákvæði um lax- og silungsveiði og ekki síður að mikið skorti á að fiskeldi og hafbeit sé búinn viðhlítandi lagarammi.
    Fyrir rúmum 10 árum voru lög nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, tekin til heildarendurskoðunar á vegum landbrn. og frv. til laga um ræktun, eldi og veiði vatnafiska lagt fyrir Alþingi á 101. löggjafarþingi 1983--1984 án þess að hljóta afgreiðslu. Frá þeim tíma hafa ýmis frumvörp verið samin en ekki lögð fyrir Alþingi. Haustið 1992 fékk ég þá Árna Ísaksson veiðimálastjóra og Ingimar Jóhannsson fiskifræðing til að vinna úr þeim frumvarpsdrögum sem fyrir lágu og gera tillögu að breytingum á gildandi lögum um lax- og silungsveiði. Að því verki kom einnig Einar Hannesson, fyrrv. starfsmaður Veiðimálastofnunar. Skiluðu þeir tillögum sínum í byrjun ársins 1993 og var frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði lagt fyrir Alþingi vorið 1993 en hlaut ekki afgreiðslu. Frv. er nú endurflutt með nokkrum breytingum og nýmælum frá fyrra frv.
    Með frv. því sem hér liggur fyrir eru lagðar til breytingar á sex köflum gildandi laga og er lögð áhersla á að hér er ekki um að ræða heildarendurskoðun laganna. Þessi leið er valin til einföldunar enda er ljóst að heildarendurskoðun lax- og silungsveiðilaga er tímafrek eins og dæmin sanna og ekki óeðlilegt að slíkt gerist í áföngum. Leggja verður áherslu á að breytingar þær sem hér eru lagðar til eru afar brýnar og má í því sambandi nefna ákvæði í IX. kafla laganna um fiskeldi og hafbeit og í XIII. kafla um stjórn veiðimála, Veiðimálastofnun og eftirlit.
    Fiskeldi og hafbeit hafa vaxið mjög ört síðustu ár án þess það fullnægjandi lagaákvæði væru fyrir hendi varðandi þessa starfsemi. Frv. þessu er ætlað að bæta þar úr brýnni þörf. Helstu breytingar og nýmæli sem frv. þetta felur í sér eru eftirfarandi:
    Í 1. gr. frv. er aukið nokkuð við orðaskýringar í 1. gr. gildandi laga. Bætt er við skýringum á orðunum ,,eldisstofn, fiskeldisstöð, fiskræktarslepping, geldstofn, hafbeit, hafbeit til stangaveiði, hafbeitarstofn, hafbeitarstöð, kvíaeldi, laxastofn, netlög, strandeldi og villtur laxastofn``. Þá er skýring á orðinu fiskeldi mun ítarlegri en í gildandi lögum.
    Í 2. gr. frv. eru gerðar breytingar á IV. kafla laganna. Í stað orðsins friðun í núverandi kaflaheiti IV. kafla er notað orðið veiðistjórnun sem er heppilegra orðalag og nær auk þess betur yfir efnisákvæði kaflans.
    Í 2. gr. a, eða 5. mgr. 14. gr., er að finna heimild til handa hafbeitarstöð að leysa til sín sjávarveiði sem liggur nærri, hliðstætt og segir um veiðivatn. Telja verður eðlilegt að hafbeitarstöð sem sleppir miklum fjölda gönguseiða í sjó eigi þess kost með sama hætti og eigendur veiðiáa að leysa til sín veiðilagnir sem gætu tekið hluta af afurðum stöðvarinnar.
    Í 6. mgr. 14. gr. er lögð til lögfesting á hámarksfjölda silungsneta í sjó frá hverju lögbýli mest tvö net. Í lögum um lax- og silungsveiði frá 1957 var kveðið á um að ekki mætti fjölga lögnum frá því sem verið hafði frá árunum 1952--1957. Í gildandi lögum frá 1970 er ákvæðið áréttað í 27. gr. Gengið er út frá því að á árinu 1957 hafi viðkomandi lögbýli ekki haft fleiri en tvö lagnet í sjó.
    Í 2. gr. b, eða 3. mgr. 15. gr., er það nýmæli að unnt sé að friða tiltekin svæði í sjó í nágrenni mikilvægra veiðivatna fyrir starfsemi á sviði fiskeldis og hafbeitar með laxfiski með það að markmiði að vernda villta laxastofna. Reynslan sýnir að æskilegt er að lög geymi heimild til að takmarka fiskeldisstarfsemi á afmörkuðum svæðum í sjó í námunda við laxveiðiár þar sem miklar laxagöngur fara um á leið sinni í árnar. Ákvæði af þessu tagi veitir heimild til eða er til þess fallið að hinir villtu laxastofnar njóti viss forgangs og verndar. Dæmi um slíkt er að finna í nágrannalöndum okkar, t.d. Noregi.
    Í 2. gr. e og f, eða 18. og 19. gr., er lagður til rýmri árlegur veiðitími á lax og göngusilungi, rýmri sólarhringsveiði þessara fiska og veiðiaðferðir. Meiri sveigjanleiki í veiðitíma er árangur af áratuga reynslu af vel þróuðu starfi veiðifélaga víðs vegar um landið. Gert er ráð fyrir að heimilt sé að veiða í ám að næturlagi á þeim tíma sem bjart er þó daglegur veiðitími sé áfram takmarkaður við 12 klukkustundir. Einnig má benda á þá rýmkun frá gildandi lögum að frjáls veiðitími göngusilungs er lengdur um 20 daga eða til 10. okt.
    Í 2. gr. j, eða 23. gr., er merkilegt nýmæli um skyldur ræktenda til að gera fiskræktaráætlun í hverju veiðivatni þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt eða sleppingu seiða eða hafbeit til stangveiði. Telja verður að sérstök fiskræktaráætlun sé til þess fallin að gera fiskræktarátak markvissra og tryggja að hagsmunir viðkomandi fiskstofns séu sem best tryggðir þegar til lengri tíma er litið.
    Í 3. gr. frv. eru lagðar til breytingar á V. kafla gildandi laga og heiti kaflans breytt þannig að orðið ,,veiðistjórnun`` er notað í stað friðunar og þannig ber kaflinn heitið ,,Um veiðistjórnun vatnasilungs``. Ákvæði frv. fela í sér verulega rýmkun á gildandi ákvæðum um friðun vatnasilungs.
    Í 4. gr. frv. eru lagðar til breytingar á VII. kafla laganna og gildissvið kaflans víkkað þannig að gert er ráð fyrir að ákvæði hans nái til fiskvega og annarrar mannvirkjagerðar í og við veiðivötn. Í 4. gr. eða 43. gr. er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir að veiðimálastjóri láti fara fram líffræðilega úttekt áður en ráðist er í efnistöku eða mannvirkjagerð í eða við veiðivatn sem kynnu að fela í sér hættu fyrir lífríki þess þar með talin fiskstofnun þess.

    Í 5. gr. frv. eru lagðar til allnokkrar breytingar á IX. kafla gildandi laga, þ.e. kaflanum um fiskeldi, klak- og eldisstöðvar ríkisins. Gert er ráð fyrir því að fiskeldi og hafbeit séu háð rekstrarleyfi landbrh. að fengin umsögn veiðimálastjóra.
    Í 5. gr. frv., eða 67. gr. núgildandi laga, er gert ráð fyrir að setja heimild um töku á laxi í hafbeitarstöðvum og merkingar og sýnatöku úr fiskinum. Nauðsynlegt er að slíkar reglur tryggi sem best að framkvæmdin sé í takt við önnur ákvæði laganna um veiðar á laxi eftir því sem unnt er. 5. gr. g er nýmæli en þar er gert ráð fyrir að unnt sé að ákveða hámarkssleppingu í hafbeit enda sé talin hætta á að áform um sleppingu raski jafnvægi laxastofna eða annarra nytjafiska í hafinu.
    Í 5. gr. l, sem er við 73. gr., er kvíeldisstöð sem missir út fisk veitt heimild til að veiða fiskinn innan 200 mílna frá stöðinni í takmarkaðan tíma þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu. Ákvæði þetta gildir þó ekki innan netlaga og er heimildin háð því að veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um tjónið og að veiðarnar fari fram undir eftirliti fulltrúa hans.
    Helstu breytingarnar og nýmæli 6. gr. frv. eru ákvæðin um Veiðimálastofnun og er hlutverk hennar skilgreint sem þróunar- og rannsóknastofnun. Gert er ráð fyrir að skipuð verði fimm manna stjórn fyrir stofnunina til fjögurra ára í senn með fulltrúum frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Landssambandi stangveiðifélaga, Landssambandi veiðifélaga og Búnaðarfélagi Íslands auk fulltrúa ráðherra. Stjórn Veiðimálastofnunar er ætlað að hafa yfirstjórn stofnunarinnar á hendi og deilda hennar á landsbyggðinni en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að Veiðimálastofnun reki deildir út um landið eins og verið hefur.
    Þá er lagt til að fækka verði fulltrúum í veiðimálanefnd úr fimm í þrjá enda er eðlilegast að nefndin sé eingöngu skipuð fulltrúum hagsmunaaðila í veiðimálum þar sem nefndin fer einnig með yfirstjórn fiskræktarsjóðs. Að síðustu skal þess getið að með frv. þessu eru lagðar til breytingar á tilhögun veiðieftirlits, sbr. núgildandi ákvæði 89. gr. laganna.
    6. gr. g-liður gerir ráð fyrir að veiðieftirlit með ám sé alfarið kostað af viðkomandi veiðifélögum, en jafnframt gert ráð fyrir því að ríkissjóður kosti eftirlit með veiðum laxfiska í sjó.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.