Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:58:03 (5585)


[14:58]
     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki sagt að ég sé búinn að kynna mér þetta mál mikið en er þó aðeins búinn að líta yfir það eftir að ég kom hér í hús. Ég sé í 2. gr. 2. lið, þar er sagt:
    ,,Nú veiðist lax í sjó í veiðitæki, sem ætluð eru til veiða annarra fiska, og skal þá þeim er veiðir skylt að sleppa honum lifandi eða dauðum í sjó aftur og þannig skal óheimilt að koma með slíkan fisk í land.``
    Ég vil nú mælast til þess að svona texti sé ekki í þessu frv. Það er einfaldlega þannig að það kemur fyrir að menn fá lax í venjuleg veiðarfæri. Ég hef nokkrum sinnum fengið lax í troll, venjulegt fiskitroll, og fari alveg norður og niður að ég muni ekki éta þann lax ef ég fæ hann hvað sem svo kemur til með að standa í þessum lögum. Mér finnst þetta dálítið einkennilegt ef fiskur álpast í veiðarfæri þá skuli mönnum gert það skylt að henda honum lifandi eða dauðum. En þetta er kannski undanfari þess sem á eftir að koma inn í okkar fiskveiðistjórnunarlöggjöf að þar verði líka sagt innan skamms tíma að menn skuli

nú henda fiskinum lifandi eða dauðum þegar eitthvað skeður og það mundi kannski leysa talsverðan vanda.
    Ég vil bara ítreka það að ég tel að svona ákvæði í lagatexta eigi engan rétt á sér. Ég skil hvað menn eru að hugsa. Menn eru að hugsa það að koma í veg fyrir að menn stundi laxveiðar með veiðarfæri sem þeir þykjast vera að nota til annarra veiða en það hlýtur að mega koma því fyrir með öðrum hætti.
    Ég vil líka taka undir það að ríkissjóður dragi sig út úr kostnaði við eftirlit á veiðistöðum og ám því að þeir sem vilja viðhalda sínum veiðirétti í sínum ám og stunda þá sportveiði sér til ánægju eru ekkert of góðir til að vernda sín réttindi sem þeir eru sjálfir að óska eftir að fá að hafa.