Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:00:47 (5586)


[15:00]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki gefið mér tíma til þess að fara nægilega vel í gegnum þetta frv. Þetta er stórt og mikið mál og ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. 5. þm. Suðurl. að þetta mál er alveg ótrúlega seint fram komið. Það var lagt fram frv. sama efnis á síðasta þingi sem fór til landbn. og þar var hafin nokkur vinna í því og ef ég man rétt, eru komnar allnokkrar umsagnir um málið. Síðan gerist það aftur að frv. er lagt fram rétt undir þinglok og ég þykist vita það að það séu ýmis mál í þessu frv. sem eiga eftir að valda deilum. Ég hef orðið fyrir því að ýmsir hafa hringt í mig og spurt um þetta mál, hvar það væri statt og hvort það væri komið fram í þinginu og eflaust er hér ýmislegt sem veiðimenn eru ekki sáttir við án þess að ég ætli nú að fullyrða það.
    En mig langaði til þess að spyrja um eitt í þessu samhengi. Það kom fram í máli hæstv. landbrh. að hér er ekki um heildarendurskoðun á lögunum að ræða heldur brýnustu lagfæringar, en það vakna spurningar um þá stofnun sem á að annast þessi mál, þ.e. Veiðimálastofnun. Ég átti sæti í nefnd sem einkum vann sl. sumar og átti að leggja til flutning ríkisstofnana út á land. Ein af þeim tillögum sem nefndin kom með var þess efnis að Veiðimálastofnun yrði flutt til Akureyrar. Hér er um stofnun að ræða sem ekki þarf endilega að binda við Reykjavík og er kannski ein af þeim sem helst er hægt að flytja. Það má deila um ýmsar aðrar og ýmislegt af því sem nefndin lagði til en mig langar í því sambandi að spyrja hæstv. landbrh. hvort uppi séu áform í lanbrn. um að flytja þessa stofnun út á land og ef svo er þá ætla ég svo sannarlega að vona að þar verði betur staðið að verki en hjá hæstv. umhvrh. sem upp á sitt eindæmi hefur ákveðið að leggja niður embætti veiðistjóra og flytja til Akureyrar án þess að . . .  (Gripið fram í.) Ja, það er nú það, samkvæmt þeim skjölum sem fram hafa komið þá er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að embættið sem slíkt verði lagt niður og að stöðurnar verði með öðrum hætti norður á Akureyri. En ég vona svo sannarlega að landbrh. muni standa þar betur að verki ef meiningin er að flytja stofnunina og mig langar til að spyrja um áform hans í því efni.