Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:25:14 (5590)


[15:25]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég var vægast sagt undrandi á því að hæstv. ráðherra skyldi ekki frekar þakka mér fyrir að hafa dregið saman það sem fram hafði komið í ræðum manna áður og auðvelda honum þannig að svara. Það kom mér satt að segja á óvart að hann skyldi vera með drýldni yfir því.
    Hæstv. ráðherra kom einmitt að kjarna málsins í sínum lokaorðum. Hér er um að ræða málaflokk sem tengist miklum hagsmunum fjölda aðila og þess vegna hlýtur Alþingi að verða að taka sér tíma í þetta mál. Það er einhver misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég telji það ofverk þingmanna að setja sig niður í þann texta sem hér hefur verið lagður fram. Það er ekki málið. Málið er að það hlýtur að vera skylda Alþingis í svona viðamiklu máli að leiða fyrir þingnefndina til viðtals þá fjölmörgu hagsmunaaðila sem hér um ræðir og ganga þannig frá hnútum að þegar upp verði staðið geti allir aðilar sætt sig við málið. Um það snýst málið, en ekki það að þingmenn í hv. nefnd telji það ofverkið sitt að setja sig inn í efnisþætti málsins. Það er ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að okkur takist að leiða hér fram sjónarmið allra hagsmunaaðila og ganga þannig frá hnútum að ekki hljótist óþarfa deilur og tjón af. Það er ekkert mikið þó Alþingi ætli sér í það nokkrar vikur þegar það tók framkvæmdarvaldið, hæstv. ráðherra, allan veturinn að bæta inn þeim köflum sem eru komnir til viðbótar frá því sem var í fyrravor.