Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:30:03 (5594)


[15:30]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mér finnst ástæðulaust hjá ráðherranum að fara hér í hávaða um störf landbn. Það hefur komið fram í ræðum manna að menn vilja vinna í þessu og vinna vel. En það sem menn hafa vakið athygli á er þetta brenglaða tímaskyn sem ráðherrarnir virðast búa við. Það henti hæstv. landbrh. að koma fram með þetta þingmál undir lok síðasta þings. Það hendir hann aftur. Ef ég á að hressa upp á staðreyndir framtíðarinnar fyrir þennan ráðherra, þá eru 15 dagar eftir páska sem eru starfsdagar þessa þings. Það er stuttur tími. Þess vegna finnst mér kannski ekki að það þurfi að tala til okkar í köldum tón, tala um hvort við teljum okkur umkomna til að vinna í málinu o.s.frv. Við erum tilbúnir til þess. En við gerum okkur kannski fremur grein fyrir því en ráðherrann að þetta er mjög flókið mál og það eru miklir hagsmunir í húfi. Það eru margir sem vilja gera sínar athugasemdir og koma fyrir nefndina.
    Það sem ég sakna í frv. ráðherrans, sem þrátt fyrir allan þann tíma sem hann hefur tekið sér frá því í fyrravor, er að þess er ekkert getið hverjir hafa komið að málinu. Hverjir hafa komið að þessu máli í millitíðinni? Hefur það verið einn kontóristi hjá ráðherranum uppi í ráðuneyti eða hafa hagsmunaaðilar og ýmsir aðilar úr þjóðfélaginu, sem ekki voru nefndir í frv., komið að málinu? Ég spyr eftir því. Það er

oft svo í þingmálum að þess er getið hverjir vinna að frv.
    Það er brenglað tímaskyn sem ríkisstjórnin býr við. Ég hef lengi gert mér grein fyrir því með suma þessa ráðherra að í huga þeirra er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir. En ég held og tek undir það að það er mikilvægt að landbn. fái tíma. Ég efast ekkert um vilja formannsins til að vinna í þessu máli en við þurfum auðvitað okkar tíma í málinu.