Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:32:22 (5595)


[15:32]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kvað nokkuð við annan tón hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Eins og fram kom og raunar líka í fyrri ræðu hans, þá var hann kunnugur meginefni frv. frá því á sl. vori og þótti ekki ofverkið að setja sig inn í efni þess.
    Á hinn bóginn vil ég taka fram að að frv. hafa unnið hinir sömu og áður og verið til leiðbeiningar um það til hvers skuli tekið tillit og það liggur fyrir.
    Hitt er alveg ljóst og ekki ætla ég að fara í einhvern langhund um það að ef þingið telur að málið sé þannig vaxið í heild sinni að það telji það ekki nógu þroskað til þess að samþykkja það nú á þessu vori, sem ég raunar skil ekki vegna þess að málið hefur í öllum höfuðdráttum verið til meðhöndlunar í heilt ár, þá verður við svo búið að sitja. Málið er ekki flóknara en það.