Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:35:20 (5597)


[15:35]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hv. þm. finnst ósanngjarnlega til stjórnarandstöðu talað, en á hinn bóginn elskulega til ráðherrans. Ég verð að segja eins og mér finnst um þessi atriði og þessa undarlegu umræðu að þetta frv. var lagt fram til kynningar á sl. vori. Nú er talað eins og það skipti ekki máli. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ef vilji stjórnarandstöðunnar stendur ekki til þess að afgreiða þetta frv. nú, þá verður það ekkert afgreitt nú. ( JGS: En vilji ráðherrans?) Þó vilji ráðherrans sé að reyna að koma ákveðnum köflum þess a.m.k. áfram.
    En ég ætla ekki að standa hér dag eftir dag þann stutta tíma sem eftir er og deila um þessi mál því að það farast ekki himinn og jörð hvort sem lax- og silungsveiðifrv. verður afgreitt á þessu vori eða á hausti komanda. Það fer eftir mati nefndarinnar á því hvort hún telur að einhverjir þeir kaflar séu í frv. sem hún telur nauðsynlegt og betra að nái fram að ganga nú á þessu vori. Mér finnst málið ekki vera flóknara. Ég er ekkert ósáttur við það þó að einhverjir þessara kafla bíði haustsins. Aðalatriðið er að hver kafli út af fyrir sig er ávinningur. Allir þessir kaflar víkja að mjög viðkvæmum hlutum, bæði gagnvart borgarbúum og eins veiðiréttarhöfum, gagnvart sjómönnum og ýmsum öðrum aðilum. Það reynir því bara á það hvernig landbn. lítur á það. Ef hún þarf að athuga þetta allt frá grunni og ef hún vill taka lögin fyrir frá grunni, þá er það of mikið verk til að gera það nú á þessu vori. En málið var nú einu sinni lagt fyrir í fyrravor til kynningar og til þess að menn gætu sett sig inn í það og kannski hraðað þingmeðferðinni nú.