Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 19:33:20 (5616)


[19:33]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þm. um það hvenær nefndin sem er að skoða tilhögun um greiðsluaðlögun eins og hún hefur verið framkvæmd í Noregi, hvenær hún var skipuð, þá var það á haustmánuðum. Ég man það ekki nákvæmlega hvenær það var. Þar á undan var fulltrúi félmrn. á sumrinu að afla sér ýmissa gagna þar að lútandi. Þeir sem eru í þessari nefnd eru fulltrúi félmrn., dómsmrn., Húsnæðisstofnunar og húsnæðismálastjórnar ef ég man rétt og nefndinni er ætlað samkvæmt skipunarbréfi að hafa samráð við Neytendasamtökin, verkalýðshreyfinguna og fjármálastofnanir.
    Varðandi það hvort ég sé hér og nú tilbúin til þess að gefa yfirlýsingu um það að lækka vexti hjá Byggingarsjóði ríkisins eins og þingmaðurinn sagði, en hann er víst að tala um Byggingarsjóð verkamanna, þá er það vissulega í skoðun hvort það séu einhverjar aðstæður til þess að lækka vextina hjá Byggingarsjóði verkamanna. Við erum með það í skoðun, við erum með samráðsfundi reglulega með Húsnæðisstofnun þar sem hefur verið farið yfir þessa möguleika. Það er verið að skoða það hvort það séu forsendur fyrir því miðað við eiginfjárstöðu sjóðsins að lækka vextina. Ég vil ekkert um það segja hvort það verður gert fyrr en sú niðurstaða er fengin. Það er auðvitað forsenda fyrir því að athuga hvort það sé möguleiki og hvort eiginfjárstaða sjóðsins þolir það vegna þess að ef hún gerir það ekki þá verðum við auðvitað að fækka verulega útlánum á félagslegum íbúðum. Það eru ekki nema tveir valkostir í því efni.