Rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:55:25 (5680)

[15:55]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði sem er 320. mál þingsins á þskj. 511. Meðflm. með mér að þessu máli eru hv. þm. Pálmi Ólason, Valgerður Sverrisdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela Orkustofnun að kanna til hlítar með borun rannsóknarholu háhitasvæði það sem verulegar líkur eru taldar vera á að sé að finna í söndum Öxarfjarðar og Kelduhverfis.``
    Í greinargerð segir að á vegum Orkustofnunar hafa verið gerðar rannsóknir í Öxarfjarðarhéraði sem benda til þess að verulegar líkur séu á því að á söndum Öxarfjarðar og Kelduhverfis sé öflugt háhitasvæði. Hér er um að ræða viðnámsmælingar, mælingar á efnahita, mælingar á útgeislun jarðskjálftaorku og notkun reiknilíkana. Niðurstöður rannsóknanna benda allar í þá átt að miklar líkur séu á því að á austurbakka Bakkahlaups í Kelduhverfi sé háhitasvæði sem sé a.m.k. 10 km 2 stórt. Að hluta til er þetta jarðhitakerfi í setlögum og er það einstætt meðal íslenskra háhitasvæða og því talið varhugavert að yfirfæra reynslu af öðrum háhitasvæðum yfir á svæðið við Bakkahlaup.
    Til að ganga úr skugga um það hvort tilgátur um öflugt háhitasvæði á þessum slóðum reynast réttar er talið nauðsynlegt að bora rannsóknarholu á hitasvæðinu við Bakkahlaup, allt að 1.200--1.500 metra djúpa, og hugsanlega aðra rannsóknarholu við Skógalón. Rannsóknarhola við Skógalón gæti jafnframt varpað ljósi á uppruna lífræna gassins sem þar hefur fundist.
    Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. er hluti af tillögum sem sá sem hér talar hefur flutt um rannsóknir á náttúruauðlindum. Sú leið hefur verið farin að beina athyglinni að ákveðnum landsvæðum og ákveðnum auðlindum þó að sú leið hafi verið farin í annarri þingsályktun að beina athyglinni að náttúruauðlindum á landinu í heild. Það er gert vegna þess að 1. flm. þessarar tillögu og væntanlega einnig meðflm. hans telja að það sé skynsamlegt að beina athyglinni að ákveðnum orkulindum og ákveðnum möguleikum, ekki síst þegar um er að ræða tiltölulega mikið dreifbýli þar sem atvinnulíf er fábreytt en á sama tíma er þar að finna mjög veruleg orkusvæði í jörðu.
    Ég legg til að að lokinni fyrri umræðu um þáltill. verði henni vísað til síðari umr. og til hv. iðnn.