Rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:05:53 (5682)


[16:05]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrir að taka vinsamlega undir það mál sem hér er flutt. Að sjálfsögðu er hér um að ræða viljayfirlýsingu um rannsóknir án þess að fyrir liggi rannsóknaráætlanir og eins og sést hér á greinargerðinni þá er gert ráð fyrir allmiklum sveigjanleika í þessum hugmyndum, í þessari viljayfirlýsingu. Það er talað um eina til tvær rannsóknarholur og að rannsóknarholan við Bakkahlaup verði frá 1.200--1.500 metra djúp. Kostnaðurinn ræðst að sjálfsögðu mjög mikið af þessum forsendum og eðlilegt verður að teljast að ef þessi þáltill. verður samþykkt hér á þinginu þá verði gerð ítarleg rannsóknaráætlun og kostnaðaráætlun með henni og hugsanlega í áföngum, með skiptum kostnaðarliðum eftir áföngum.
    Það sem hefur í raun og veru hugsanlega breytt forsendunum fyrir rannsóknum af þessu tagi er það að upp hafa komið efasemdir um nýtingu orkulinda okkar til orkuframleiðslu bæði varmaorku og nýtingu fallvatna. Þessar efasemdir hafa aukist nú upp á síðkastið, ekki síst vegna þess að sá málmiðnaður sem byggist á mikilli orkunotkun hefur látið eftir sér bíða þó að í þeim efnum geti veður breyst skyndilega.
    Þá hafa vaknað hugleiðingar um það hvort við getum ekki notað þessar orkulindir okkar með fjölbreytilegri hætti en hingað til hefur verið hugað að. Það hefur t.d. sáralítið verið skoðað hvort við getum á einhvern hátt nýtt jarðhita í þágu ýmissa annarra atvinnugreina. Það hefur t.d. ekki verið athugað hvort við getum nýtt jarðhitann þó kannski sé ekki í miklum mæli í þágu ferðaþjónustunnar eða þá með samtengingu á ferðaþjónustu og heilbrigðisþjónustu, með svokallaðri baðmenningu sem er gífurleg tekjulind víða annars staðar. Það eru sum héruð í Evrópuríkjum sem nýta sér baðmenningu, stundum er það byggt á sérstökum heitum uppsprettum, stundum er það ekki, en þau nýta sér þetta í tengslum við ferðaþjónustu á gífurlega mikilvægan hátt sem er uppsprettulind tekna þar í löndum svo að það skiptir verulegu máli fyrir þjóðarhag þessara viðkomandi þjóða. Ég nefni sem dæmi Þýskaland, Ungverjaland og Frakkland sem hafa nýtt sér slíkan vatnsbúskap alveg sérstaklega í þágu ferðamennskunnar. Þetta höfum við ekki skoðað neitt að ráði og það er full ástæða til þess að huga að því hvort við getum ekki nýtt þó ekki sé í eins stórum mæli eins og við höfum verið að tala um í sambandi við orkufrekan iðnað þessar auðlindir okkar í sambandi við aðrar atvinnugreinar.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. e. að auðvitað skiptir miklu máli að viljayfirlýsingar þingsins finni sér farveg inn í fjárlög og njóti skilnings í þeim.